Óhóflegt sykurát og brjóstagjöf

06.12.2005

Sælar!

Er að velta fyrir mér hvaða áhrif óhóflegt sykurát hjá móðir hefur á brjóstabörn? Er mjög meðvituð um að það sem ég borða hefur áhrif á soninn en er að velta fyrir mér hvort það er vitað áhrif of mikið sykurát hefur á barnið, þ.e. hvort það eru einhver langtíma áhrif á það og heilsu þess?

Kærar þakkir.

................................................................................................

Sæl og blessuð.

Það eru engin bein áhrif frá sykri úr fæði á brjóstabörn. Sykur brotnar alltaf niður í frumeindir sínar. Magnið í blóði er stillt af með insúlíni þannig að blóðið sem skilar næringarefnum til mjólkurframleiðandi fruma er alltaf jafn „sætt“. Þannig skilar aukið sykurmagn sér ekki yfir til barnsins. Þetta er hins vegar vandamál hjá sykursjúkum konum þar sem insúlínbúskapur er truflaður. Því má hins vegar halda í jafnvægi með góðu eftirliti og insúlíngjöfum o.fl. eftir aðstæðum hverju sinni.

Vona að þetta hafi skýrt eitthvað.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. desember 2005.