Óhófsdrykkja áfengis og brjóstagjöf

25.03.2007

Ég ætla bara að byrja á því að þakka fyrir góða síðu, hún er búin að hjálpa mér mjög mikið í gegnum meðgönguna :)

Ég er 18 ára og eins og flestir vita þá eru allir vinir mínir og krakkar á mínum aldri mjög uppteknir af djamminu og þannig löguðu. Ég er búin að halda mig að mestu frá því alla meðgönguna (hef samt ekki drukkið en ég hef farið að edrú á djammið) og býst ekkert við því að fara að stunda þetta eitthvað aftur. Þó að ég muni kannski einstaka sinnum vilja fara með vinkonum mínum. En ég las hérna á síðunni að áfengisneysla með barn á brjósti er ekki skaðlega nema ef þú drekkur mjög hóflega við hátíðlegar aðstæður eða hvernig sem það var orðað, og náttúrulega gefur barninu ekki meðan áfengið er ennþá í líkamanum. En hvernig er þetta þá ef ég drekk sjaldan en ekki kannski hóflega í þau skipti sem ég drekk?


Sæl og blessuð.

Fyrsta regla er alltaf að drekka ekki neitt áfengi. En það er rétt sem þú hefur lesið um að það gerist ekkert hættulegt fyrir barnið þótt drukkið sé stöku sinnum og þá barninu ekki gefið á meðan áhrifin vara. Best er að það sé hóflega drukkið þ.e. sem minnst og veikast. Það gildir þó sama regla ef það er drukkið mikið í einu. Þá er barninu ekki gefið á meðan áhrifin vara en allt í lagi eftir það. Það er ekki mjólkað úr brjóstunum og mjólkinni hent eins og tíðkaðist hér áður fyrr.

Vona að þetta svari þínum spurningum.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. mars 2007.