Spurt og svarað

19. ágúst 2010

Ókostir og kostir brjóstagjafar

Halló, halló!

Ég er mamma þriggja barna og hef haft þau öll lengi á brjósti, um tvö ár eða aðeins meira. Hef lesið talsvert um kosti langar brjóstagjafar fyrir bæði barn og móður. Veit að börn sem eru lengi á brjósti verða minna veik, fá síður ofnæmi, eru síður offeit og fá síður sykursýki. Og að langvarandi brjóstagjöf minnkar líkur á brjóstakrabbameini og jafnvel fleiri kvillum hjá móður. Velviljað fólk í kringum mig hefur áhyggjur af að svona löng brjóstagjöf hafi slæm áhrif á barnið eða mig. Sumir nefna þungamálma í móðurmjólk sem séu slæmir fyrir börnin og aðrir að ég sé að ganga svo á líkamann minn með því að gefa börnunum svona lengi. Getið þið gefið mér yfirlit yfir kosti og líka ókosti langvarandi brjóstagjafar. Sérstaklega langar mig að vita hvort sýnt hafi verið fram á einhverja augljósa ókosti við langvarandi brjóstagjöf (sem snerta annað hvort barn eða móður).

Bestu kveðjur.


 

Sæl og blessuð!

Til hamingju með þínar löngu brjóstagjafir. Frábært. Þú biður um lista yfir kosti brjóstagjafar. Það er ansi mikið. Ég gerði einu sinni lista með 70 ástæðum til brjóstagjafar og hengdi upp á vegg í vinnuherberginu mínu og ég er ekki viss hvort rétt sé að skrifa hér svo langan lista. Þú er með aðalástæðurnar á hreinu. Það eru reyndar margir sjúkdómar barna sem hægt er að minnka líkurnar á að barn fái ef það er lengi á brjósti og svo má ekki gleyma andlegu ástæðunum en þau eru talin verða sjálfsöruggari og í góðu jafnvægi. Hjá móður minnka líka líkur á eggjastokkakrabbameini og beinþynningu. Svo má líka telja kostina fyrir þjóðfélagið en það er augljós sparnaður í mat fyrir barnið, bleyjum, læknisheimsóknum, lyfjum ofl. Ókostirnir eru fljótupptaldir. Þeir eru engir sem ég get munað. Þungmálmar eru jafnt í kúamjólk og í henni eru fleiri aukaefni. Og barnið er að sjálfsögðu ekki að ganga á líkama þinn ef þú passar upp á þig. Samkvæmt rannsóknum hafa ekki fundist almenn neikvæð áhrif, stöku konur nefna að minni tími gefist fyrir aðra fjölskyldumeðlimi en flestar kvarta yfir neikvæðu viðhorfi vina og ættingja sem geti dregið úr þeim kjarkinn. Vona að þessar línur hjálpi þér til að vinna á móti því.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.