Spurt og svarað

13. febrúar 2013

Ólétt með barn á brjósti

Sælar og takk fyrir lífsnauðsynlega síðu!
Ég er 13 vikur gengin með annað barn og er með eina 18 mánaða á brjósti. Planið var að halda því áfram því við sjáum ekkert því til fyrirstöðu. Hinsvegar sagði ljósmóðirin mín í mæðraverndinni að ég ætti að hætta fyrir fæðingu. Ég vil taka það fram að þetta var ekki ábending/ráðlegging heldur tilkynning eins og að ég ætti að hætta að borða sushi. Ég fékk sjokk þar sem að ég hélt að ljósmæður væru u.þ.b. þær einu sem styddu konur með eldri börn og/eða óléttar konur með börn á brjósti. Ég treysti mér ekki til að ræða þetta frekar við hana þar sem ég þarf að réttlæta þessa ákvörðun nóg fyrir öðrum. En það er nógu erfitt að hafa sjálfststraustið til að fylgja eigin sannfæringu og nú þarf ég bara að heyra það frá öðrum. Á ég að hætta? Eru fyrir því einhverjar læknisfræðilegar ástæður? Mun ljósmóðirin í heimaeftirlitinu segja mér að hætta og að þetta sé bara dekur? Ég er í rusli yfir þessu öllu og finnst eins og þetta hafi verið seinasta höggið í nú þegar auman blett. Það mætti halda að maður væri að fara illa með barnið miðað við viðbrögð sumra. Ég veit að þetta er mín ákvörðun en stundum er maður ekki viss.Sæl vertu og takk fyrir bréfið.
Til hamingju með dömuna þína og þungunina.
Það virðast ekki til margar rannsóknir sem tengjast þessari áhugaverðu spurningu þinni, en þó fann ég eina sem birt var sl. haust. Var hún gerð til að skoða hvort tengsl væru á milli brjóstagjafar á meðgöngu og líkinda á því að barnið sem gengið væri með greindist sem léttburi við fæðingu. Ekkert í þessari rannsókn sýndi fram á aukna hættu á léttburafæðingu, þó kona væri með eldra barn á brjósti seinni hluta meðgöngunnar. Bent var á að þetta þurfi þó að skoða nánar þar sem þetta hafi lítið verið rannsakað.

Áströlsku brjóstagjafasamtökin hafa sent frá sér góða grein https://www.breastfeeding.asn.au/bf-info/breastfeeding-through-pregnancy-and-beyond um þetta efni sem ég ráðlegg þér eindregið að lesa vel yfir. Styður hún vel við þínar hugmyndir um brjóstagjöf á meðgöngu og það að hafa tvö börn á mismunandi aldri á brjósti í einu. Kemur þar fram að mjög litlar líkur séu á því að brjóstagjöf á meðgöngu hafi áhrif á meðgönguna, nema þá til góðs og líkami móðurinnar sjái til þess að litla barnið fái sína næringu bæði fyrir og eftir fæðingu. Eldra barnið og móðirin fái einnig hvíldarstundir fyrir og eftir fæðingu meðan á brjóstagjöfinni stendur sem er gott fyrir þau bæði.

Einnig er hér önnur grein um svipað efni eftir Anne Smith brjóstagjafaráðgjafa http://www.breastfeedingbasics.com/articles/nursing-during-pregnancy-and-tandem-nursing

Ég vil svo að lokum benda þér á að þú hefur rétt á því og getur óskað eftir að skipta um ljósmóður í mæðravernd og hefur val um ljósmóður í heimaþjónustu sem ættu þá að geta stutt þig í ákvörðun þinni varðandi brjóstagjöfina.

Gangi þér vel,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir og kennari,
13. febrúar 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.