Ólétt með tveggja ára á brjósti

07.09.2008

Komið þið sælar.

Ég þakka góða síðu sem nýtist mér vel. Ég er ólétt og með tveggja og hálfs árs son á brjósti. Hann fær brjóstið sitt u.þ.b. tvisvar á dag. Um miðja meðgöngu hætti ég að mjólka, held ég, en sonurinn vildi samt ekki hætta (vildi reyndar bara annað brjóstið). Nú er kominn broddur sem lekur úr brjóstunum og því geri ég ráð fyrir að stráksi sé að fá eitthvað af honum. Er þetta allt í lagi? Verður broddurinn sem nýburinn fær eftir tvo mánuði jafn góður þótt bróðirinn hafi fengið forsmekk? Haldi þið að það sé gott eða slæmt fyrir soninn að halda áfram á brjósti fram að/yfir fæðingu, hann er svo fastheldinn á brjóstið sitt og mér finnst erfitt að þvinga hann til að hætta áður en hann er tilbúinn.

Bestu kveðjur og óskir um að úr rætist í kjarabaráttunni ykkar.


Sæl og blessuð.

Takk fyrir góðar óskir okkur til handa. Varðandi þitt vandamál þá er þér alveg óhætt að leyfa eldra barninu aðgang að brjóstinu. Hann fær brodd svona í bland en hann er ekki að taka neitt frá nýja barninu. Það framleiðist alveg sér fyrir það. Þú getur samt átt von á að hann venji sig sjálfur af brjósti á síðustu vikunum eða kringum fæðinguna. Í raun getið þið haft þetta svolítið eins og þið viljið. Ef þið viljið bæði halda brjóstagjöfinni áfram þá gerið þið það. Nýja barnið bætist svo bara í hópinn og fær sína brjóstamjólk alveg eins og það þarf.

Með bestu óskum. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. september 2008.