Spurt og svarað

01. mars 2009

Ónæmiskerfi og móðurmjólk

Sæl!

Ég er hérna heima með einn nýlega orðinn eins árs sem er með agalega veikt ofnæmiskerfi. Það eru endalaus kvef,eyrnabólgur, hiti og þess háttar og hann er svo til alltaf á pensilíni (3 meðferðir búnar á þessu ári).Spurning mín er því sú hvort ég ætti að reyna að gefa honum móðurmjólk á ný? Hef heyrt að hún sé svo góð upp á ofnæmiskerfið að gera og hafði hugsað mér þá að ná upp mjólkinni aftur og gefa honum bara úr glasi 2 sinnum á dag þar sem hann vill ekki brjóstið (vildi það a.m.k. ekki þegar ég reyndi það þegar hann var um 4 mán). Hann hefur ekki verið á brjósti síðan um 2 mánaða þegar hann var færður yfir á Nutramigen vegna magavandamála. Ég mjólkaði ágætlega og var svolítið lausmjólka. Í dag næ ég að kreista 1 msk. úr brjósti og hún er dísæt ekki brimsölt eins og sumir segja og á góða Medela "spítalatýpu" dælu uppi í skáp ásamt Fenugreek. Ef ég ætlaði að ná mjólkinni upp aftur, hvernig væri þá best að gera það?

 Kveðja. Umhyggjusöm mamma.

 


Sæl og blessuð umhyggjusama mamma!

Þetta er góð spurning og ég er ekki viss um að ég geti svarað henni nægilega vel. Þetta er falleg hugsun hjá þér en ekki víst að hún myndi virka vel í framkvæmd. Ónæmiskerfið er að mörgu leyti mótað um 6 mánaða aldurinn. Það er auðvitað ýmislegt sem þú getur gert eftir þann aldur en það eru þá meira almenn atriði sem stuðla að heilbrigði. Það er ekkert alslæmt þótt barnið sé að fá umgangspestir á þessum aldri því ónæmiskerfið er að vissu leyti að styrkjast á því. Það er að læra að takast á við hinar ýmsu bakteríur og verður því í framtíðinni betur fært um að ráða við þær.

Þú getur náð upp mjólkurframleiðslu aftur eins og þú ert búin að finna og mjólkin er alltaf góð fyrir barnið. En að leggja mikla vinnu í að ná upp mikilli mjólk er ég ekki viss um að skili þeim árangri sem þú kannski vonast eftir. Þér er þetta að sjálfsögðu í sjálfsvald sett. Ef þú ákveður að fara út í svona aðgerðir er það gert á sama hátt og í byrjun. 10-15 mín. örvun með vélinni 8-12 sinnum á dag í nokkra daga. Framhaldið ræðst svo af árangri.

Vona að þessi svör hjálpi þér.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.