Spurt og svarað

07. apríl 2005

Óörugg með brjóstagjöfina

Sælar ljósmæður!

Ég á 4 vikna strák og er ennþá svolítið óörugg hvernig ég á að haga brjóstagjöfinni og hvort ég sé að gera þetta rétt. Á ég að gefa bara annað brjóstið í einu eða bæði? Eftir hvað langan tíma á ég að skipta yfir ef ég geri það? Hvað þarf hann að sjúga lengi til að fá nóg? Mér finnst hann svo oft vilja drekka og hann sefur svo stutt í einu á daginn, vill bara alltaf vera á brjóstinu, Þetta eru svona 10-13 gjafir á sólarhring. En á nóttunni sefur hann kannski 3-4 tíma í einu. Svo er mér alltaf hálf illt í brjóstunum, þau eru aum og geirvörturnar aumar líka, samt ekki sár. Mjög oft finnst mér vont eða óþægilegt að gefa brjóst, en ekki alltaf, stundum finn ég ekkert, en stundum er það sárt. Ég hef ekki þorað að gefa honum snuð ennþá þar sem hann var stundum að taka geirvörtuna vitlaust þannig að það var sárt og hún kom út skökk þegar hann sleppir. En er það kannski ráðið að gefa honum snuð? Þori því samt ekki alveg. Geturðu ráðlagt mér eitthvað? Ég er svo óörugg með þetta allt.

Takk fyrir  góðan vef.

...........................................................................

Sæl og blessuð.

Það er ósköp eðlilegt að vera óöruggur fyrstu vikurnar. Það er hægt að fá óöryggisköst í marga mánuði í brjóstagjöf. Það er bara um að gera að bregðast við eins og þú gerir - leita svara.
Þú ræður því alveg hvort þú gefur 1 eða 2 brjóst í gjöf en eins og þú lýsir ástandinu myndi ég ráðleggja þér í bili að gefa bæði brjóstin í gjöf. Þá skiptirðu gjöfinni milli brjósta þannig að fyrra brjóstið sé lengur og betur gefið. Það þarf að ná a.m.k. 15-20 mín. Seinna brjóstið er meira hugsað sem svona „desert“ en ef barnið er voða svangt og drekkur það líka lengi þá er það svo sem í lagi.

Hve lengi barnið þarf að sjúga til að fá nóg er auðvitað spurning aldarinnar. Þetta er svo voðalega misjafnt. Það verður helst að ná 10 mín. til þess að það sé einhver gjöf, meðalgjafalengd er talin vera 20-30 mín. Svo koma alltaf lengri gjafir inn á milli 60-90 mín. Það má yfirleitt treysta brjóstabörnum til að taka aldrei jafnlangar gjafir. En það má sömuleiðis treysta þeim til að sjúga þar til þau eru orðin södd.

Gjafafjöldinn hjá þér er alveg innan eðlilegra marka. Þetta er sá gjafafjöldi sem passar þínu barni af því hann er þannig einstaklingur. Það þarf ekki að eiga við um einhver önnur börn sem þú þekkir.

Það er hins vegar verra mál ef þú ert með óþægindi í brjóstum og sársauka í vörtum. Það á ekki að vera vont að gefa brjóst. Þegar það gerist er annað hvort ykkar eða bæði að gera eitthvað vitlaust. Þú þarft að vera viss um að þú sért að nota réttu handtökin við að láta barnið grípa vörtuna rétt. Ég veit ekki hvort það er bara mín tilfinning en ertu kannski að láta hann sjálfan um að grípa. Það gengur ekki þó hann sé orðinn þetta gamall. Börn eru mislengi að ná tökum á þessu og þurfa mismikla aðstoð. Þú skalt nota báðar hendur til að hjálpa til þar til þú ert orðin alveg örugg. Önnur höndin stýrir höfði barnsins á meðan hin heldur utan um vörtuna og stýrir henni á réttan hátt inn í munninn (fyrst upp í góm og svo ofan á tunguna).

Nei, það er ekki rétta aðferðin til að kenna börnum að sjúga brjóst að láta þau sjúga snuð. Hann er í sjálfu sér orðinn nógu þroskaður til að sjúga snuð en ég myndi í þínum sporum bíða þar til hann er orinn öruggari í brjóstasogi.

Með bestu óskum um velgengni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. apríl 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.