Spurt og svarað

03. maí 2005

Örg á brjóstinu

Góðan daginn!

Mig langaði að spyrja aðeins. Þannig er málið að núna síðustu tvær vikur hefur dóttir mín sem er tæplega 3 mánaða gömul verið svo örg þegar ég legg hana á brjóst. Ég mjólka alveg helling og þarf alltaf að pumpa mig af því að hún drekkur ekki eins mikið og ég framleiði. Hún er yfir meðalagi í þyngd og er í alla staði rosalega frísk og vær nema þegar ég legg hana á brjóst stundum er allt í fínu lagi og hún drekkur bara vel ekkert mál svo er hún orðin pínu þreytt og þá fer allt í vaskinn.

Hún sefur alltaf frá 11 eða 12 á kvöldin og vaknar oftast í kringum 6-7 á morgnana. Getur verið að hún sé með í eyrunum? Hún hefur verið stífluð og kvefuð frá 3 vikna aldri getur verið samhengi þar á milli.

Kveðja, ein sem er frekar ráðalaus.

.................................................................

Sæl og blessuð .

Það er kannski ekki alveg víst að ég skilji þig rétt en ég ætla að gera mitt besta. Fyrir það fyrsta verðurðu að hætta þessum pumpunum. Þær eru hluti vandamálsins. Þú þarft að „venja“ brjóstin á að framleiða í samræmi við það sem barnið tekur. Ef þú ert alltaf að pumpa þá fara þau að framleiða of mikið og samsetning mjólkurinnar breytist sem er ekki hagstætt fyrir barnið. Það kemur ekki fram hversu oft þú ert að pumpa. Kannski þarftu að smá trappa það niður svo viðbrögð brjóstanna verði ekki of mikil. Hafðu í huga að það ert þú sem ræður hversu mikla mjólk þú framleiðir eftir því hve oft og mikið þú gefur brjóstið eða pumpar.

Varðandi þetta ergelsi þegar barnið er lagt á brjóst þá finnst mér þú vera að segja að það komi fram eftir einhvern tíma á brjóstinu. Þá meina ég að þetta virðist ekki gerast í byrjun gjafar. Það virðist benda til þess að gjafirnar séu að styttast sem gerist jú oft á þessum aldri. Ég reikna með að þú gefir eitt brjóst í gjöf. Ef þú ert að gefa bæði brjóstin í hverri gjöf þá er allavega kominn tími til að hætta því. En ef þú gefur eitt brjóst í gjöf þá getur nú dugað henni að drekka í 3-10 mín. Ef hún fer að verða örg þá er gjöfinni lokið. Kannski einu sinni á sólarhring er gott að hún taki langa,góða gjöf.

Þú spyrð varðandi kvef og eyrnabólgu. Því get ég ekki svarað. Það þarf læknir að skera úr um það. En ef hún greinist með kvef eða eyrnabólgu þá getur það vissulega haft áhrif á brjóstagjöfina. Þannig að það er skynsamlegt að láta lækni skoða barnið.

Með von um að vel gangi að samræma framboð og eftirspurn,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.