Orkuþörf og brjóstagjöf

18.09.2006

Sælar!

Nú hefur verið sagt að líkami kvenna með barnið sitt á brjósti þarfnist auka 500 kcal á dag. Ég var að velta því fyrir mér hvort að þessi tala væri ekki breytileg eftir því hvað barnið er gamalt og hvort það sé eingöngu á brjósti eða fái annan mat með.  Einnig hvort að þetta sé ekki aðeins breytilegt á milli kvenna.  Þarfnast líkaminn ekki meiri orku við að fæða barnið allan daginn í stað þess að vera t.d. aðeins að gefa barninu brjóst kvölds og morgna?

Bestu kveðjur, L.


Sæl og blessuð L.

Þessi tala sem þú nefnir 500 kcal á dag finnst mér vera ansi rífleg. Yfirleitt er talað um 300 hitaeiningar. Og það er rétt athugað hjá þér. Þetta miðast við fulla brjóstagjöf eða u.þ.b. 1 líters framleiðslu á dag að meðaltali. Ef framleiðsla er minni og það er verið að framleiða til móts við aðra fæðu (orkugjafa) barnsins þarf færri hitaeiningar. Munurinn á milli kvenna er ekki svo mikill en þó alltaf einhver.  Vona að þetta svari því sem þú ert að velta fyrir þér.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.