Spurt og svarað

01. desember 2005

Ósamræmi í ráðleggingum fagfólks

Halló!

Ég hef oft leitað hingað á síðuna, sérstaklega í sambandi við brjóstagjöf. Eitt hef ég þó rekið mig á undanfarið og það er ósamræmið sem er í ráðgjöf brjóstagjafaráðgjafa annars vegar og hjúkrunarfræðinga hins vegar. Hjúkrunarfræðingar í ungbarnaverndinni minni segja að þegar barnið sé orðið 6 mánaða gamalt einfaldlega verði það að fara að fá mat og þegar barnið sé orðið 8 mánaða gamalt verði það að vera farið að borða heitan mat, grænmeti og ávexti á hverjum einasta degi. Ástæðan sé sú að upp úr 6 mánaða aldri sé barnið búið að ganga á allan sinn járnforða og verði því að leita í mat til að fullnægja járnþörfinni. Brjóstagjafarráðgjafar virðast þó vera þeirrar skoðunar að brjóstamjólkin ein, eða í það minnsta sem aðaluppistaða næringar, dugi fram að 1 árs aldri! Hvernig má það vera? Enginn skal segja mér að brjóstamjólkin ein veiti ráðlagðan dagsskammt af járni. Eða er það? Æi ég er bara orðin svo þreytt á þessu ósamræmi og þetta hlýtur að vera erfitt fyrir ungar mæður sem vita ekkert í hvorn fótinn þær eiga að stíga varðandi þessi næringarmál. Brjóstagjafarherferðin virðist stundum hafa gengið út í öfgar.

Með von um skýringar, Íris.

...........................................................


Sæl og blessuð Íris.

Já, það er ósköp skiljanlegt að ráðgjöf héðan og þaðan geti verið ruglandi og það kemur fyrir að ráðleggingar stangist á. Það getur verið erfitt fyrir mæður sérstaklega með sín fyrstu börn að fá botn í þetta. Það er heldur ekki auðvelt fyrir mig að útskýra málið en ég skal reyna. Brjóstagjafaráðgjafar eru sérmenntaðir í brjóstagjöf og öllu því sem tengist henni. Þær verða að halda menntun sinni markvisst við annars missa þær réttindi sín. Hjúkrunarfræðingar hafa almenna hjúkrunarmenntun og yfirleitt hafa þær í ungbarnaeftirliti sérstakan áhuga á börnum án þess kannski að vera sérmenntaðar. Þær hafa ekki jafn skýra skyldu til endurmenntunar þannig að próf tekið um miðja síðustu öld er jafngilt og nýtt. Það þarf líka að koma skýrt fram að rannsóknir eru sífellt að fara fram á mataræði ungbarna, eiginleikum móðurmjólkur, hvernig börnum gengur að taka upp hins ýmsu næringarefni og hvernig þau vinna úr þeim. Þessar rannsóknir benda allar til að móðurmjólkin nýtist börnum lengur og betur en áður var talið og að ekkert liggi á að kynna fyrir börnum nýtt fæði. Seinnihluta fyrsta ársins eru börn talin þurfa smáviðbót af járni, sínki og D-vítamíni sem má gefa á einfaldan hátt. Í einföldu máli má segja t.d. að fast fæði gefið barni fyrir 6 mánaða aldurinn gerir barni ekkert gott. Þetta eiga margir erfitt með að skilja. Svo er það alltaf þannig að fólk á mis erfitt með að meðtaka nýjan sannleika hvort sem það er brjóstagjafaráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, læknir eða móðir. Þannig að niðurstaðan er alltaf sú að hver móðir verður að velja sér einhverja þá uppsprettu ráðgjafar og stuðnings sem hún treystir best og hún heldur að sinni þörfum barnsins síns á þann hátt sem samræmast hennar hugmyndum best. Ég mæli með því að mæður leiti sér fræðslu þar sem þær eru nýjastar og vandaðastar. Og að lokum, þá er „brjóstagjafaherferðin“ í þágu barna. Reynt er að hvetja til þess að börnum sé gefin besta næring sem til er eins lengi og hægt er nákvæmlega eins og náttúran ætlaðist til.

Vona að mál hafi eitthvað skýrst fyrir þér,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.