Spurt og svarað

19. október 2007

Ósátt við svar - næturgjafir

Sælar!

Mig langar svo að tjá mig um svar þitt vegna næturgjafa þar sem ég er mjög ósátt við það. Þú segir að barnið sjálft eigi að fá að stjórna því hvenær það hættir að drekka á nóttinni og maður eigi að sinna því með alúð í hvert skipti sem það vaknar. Ég trúi nú ekki öðru en að þú sért að tala um þegar börn vakna einu sinni á nóttinni og það gengur vel með það. Dóttir mín vaknaði bara einu sinni til svona 4ja mánaða þá fór hún að vakna tvisvar og núna þegar hún er 6 mánaða vaknar hún 5-6 sinnum að fá sér sjúss. Ég er byrjuð að vinna og finn fyrir því að þetta er farið að hafa áhrif á mig, þ.e hvað ég er lítið sofin. Dóttir mín tekur ekki snuð og því er ekkert hægt að gera þegar hún vaknar á nóttinni annað en að gefa henni að drekka.

Mér fyndist ekkert mál að vakna einu sinni yfir nótinni en þetta gengur ekki svona til lengdar. Ég verð því að hætta næturgjöfunum og ég neita að trúa því að ég geri barninu mínu illt með því. Mig langar að reyna að halda kvöldgjöfum og morgungjöfum en næturgjafirnar verða bara að hætta ef ég á að geta „fúnkerað“ í daglegu lífi. Ég ætla að treysta á hana Örnu Skúladóttir í þessum málum, dóttir mín orðin rúmlega 6 mánaða og tæp 8 kg. Ég veit að þetta er hitamál hjá mörgum og mæður fá samviskubit að hætta næturgjöfum (þar á meðal ég) þegar maður les svona svar eins og þú gafst einni konu hér nýlega.

Endilega gefðu „comment“ á þetta, ég veit að margar mæður bíða spenntar eftir því.

Kveðja, Tinna.


Sæl og blessuð Tinna.

Ég er reyndar nýbúin að svara öðru bréfi um næturgjafir. Vona að þú hafir lesið það. Þar er einmitt fjallað um fjölgun næturgjafa eftir 6 mánaða aldur. Þetta er greinilega mikið hitamál og mér finnst reyndar jákvætt að mæður ræði svona mál sín á milli og skiptist á skoðunum. Það kemur alltaf eitthvað gott út úr því. Ef að börn eru að vakna oft á hverri nóttu vaknar líka spurningin um hvort ekki er hægt að færa mynstrið til að sólarhringum. Gefa aukagjafir einhvern tíma að deginum eða kvöldinu. Eða gera fast fæði barnsins næringarríkara. Svo er eins og ég hef sagt áður viðbrögð barnsins við utanaðkomandi áreiti oft að sækja meira í mömmu sína og vakna oft á nóttunni. Þetta er yfirleitt tímabundið og hverfur með viðkomandi áreiti. Með áreiti á ég við breyting á daglegu lífi t.d.mamma byrjar að vinna eða í skóla, breytt pössun, veikindi í fjölskyldu eða spenna af einhverjum orsökum. Börn eru mjög misnæm fyrir öllum svona breytingum.   

Þú átt ekki að þurfa að hafa sektarkennd yfir ákvörðunum sem þú tekur varðandi barnið þitt. Þú ert jú alltaf að gera það sem þú telur ykkur fyrir bestu.

Með kærri kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.