Spurt og svarað

06. mars 2011

Óvær og pirruð á brjósti

Sæl!
Ég er með eina rúmlega 6 vikna sem hefur verið óvær og er að fá einhverjar magapílur á kvöldin. Undanfarið hefur þetta verið að aukast og er farið að vera á daginn líka. Hún er eingöngu á brjósti og undanfarið hefur hún látið öllum illum látum í tengslum við brjóstagjöfina. Ég er farin að kvíða því að hún vakni ef ég er með gesti eða innan um fólk þar sem hún stendur á orginu rétt áður en hún fer á brjóstið og vill ekki taka það strax. Stundum eru liðnir 3-4 klst. frá gjöf og hún ætti að vera svöng. Þegar hún tekur brjóstið þá drekkur hún. Oftar en ekki endar gjöfin svo á því að hún byrjar að gráta og við gefumst upp. Það eru bara 1-2 gjafir á sólahring sem ganga vel. Hún er greinilega með einhverjar magapílur þar sem eftir gjafir herpist hún saman og líður ekki vel. Þegar hún er sem verst þá grætur hún mjög sárt. Hún prumpar mjög mikið og oft lagast þetta þegar hún hefur náð að kúka. Stundum fær hún einnig pílur í gjöf en heldur samt áfram að drekka. Gjöfin endar þá í gráti. Ég hef verið nokkuð róleg yfir þessu því hún þyngist eðlilega, en nú er mér farið að líða hálf illa yfir þessu. Það er eins og ég sé að pína hana þegar ég er að bjóða henni brjóstið. Ef þetta er kveisa  láta þau þá svona í tengslum við brjóstagjöfina? Ég er búin að prufa miniform sem skiluðu litlum árangri og er að velta fyrir mér hvað ég geti gert þar sem þetta er orðið frekar taugatrekkjandi.

 
Sæl og blessuð!
Það er oft um þennan 6-8 vikna aldur sem hegðun barna breytist mikið. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Það er svolítið erfitt að giska á eitthvað þegar gjafamynstrið vantar. Það er svo oft hægt að laga hegðun með því að breyta gjafamynstri. Eitt er alveg víst. Hún er ekki að gera þetta að gamni sínu. Það er eitthvað sem er að angra hana eða hentar henni illa. Um leið og hægt er að finna hvað það er má laga það eða breyta því. Við magapílum er oft gott að beita ungbarnanuddi þannig að það er eitthvað sem þú getur reynt. Að öðru leyti skaltu leita þér aðstoðar þar sem hægt að fara yfir málin með öllum nauðsynlegum upplýsingum.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. mars 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.