Spurt og svarað

25. maí 2005

Óvær við brjóstið

Sælar!

Ég á stelpu sem er fimm og hálfs mánaða gömul og hún hefur verið á brjósti og gekk vel a.m.k. fjóra mánðuði. Fyrir svona mánuði fór ég hins vegar að gefa henni graut á morgnana því hún hafði þyngst of lítið og var að drekka á svona 2 klukkustunda fresti yfir nóttina líka. Hún er voða gráðug í matinn og fór aftur að sofa betur á nóttunni. Núna síðustu 2 vikur eða svo hefur hún tekið upp á að láta illa við brjóstið. Hún grætur og snýr sér frá og reynir svo aftur og svoleiðis gengur þetta. Mér finnst kannski að hún sé aftur farin að vera svöng hjá mér því hún lætur svona sérstaklega þegar frekar stutt er á milli gjafa og lítið í brjóstunum. Samt veit ég ekki alveg og stundum er eins og hún sé bara reið af því að rennslið byrjar ekki um leið. Ég hef ekki gefið mig og gef bara mjög oft til að reyna að fá meiri mjólk en finnst það kannski ekki duga til. Hún er líka aftur farin að vera með vesen á nóttunni. En það er ekki hægt að segja að gjafirnar séu hugguleg stund hjá okkur núna heldur frekar erfiðar. Spurningar mínar eru þá bæði hvort ég á að fara að gefa henni oftar að borða og hvað ég get gert til að gera gjafirnar notalegri.

...........................................................................

Sæl og blessuð Dísa.

Fyrst að brjóstagjöfin hefur gengið þetta lengi ættirðu að geta komist yfir þetta tímabil hjá henni. Ég veit að þau eru svolítið erfið þegar þau láta svona en það er alveg hægt að komast framhjá þessu. Mér finnst ótrúlegt að vanti eitthvað upp á mjólkina hjá þér því þú ert dugleg að leggja oft á. Það er truflar hana heldur ekki að rennslið byrjar ekki strax. Þannig hefur það jú verið í tæpa 6 mánuði og hún þekkir ekkert annað. Mér finnst líklegast að þú þurfir að vinna svolítið í gjöfunum sjálfum. Reyna að gera þær að huggulegri stund. Breyta um stað sem þú gefur á, gera rökkvaðra, bæta við púðum,hafa ljúfa lágværa tónlist á, reyna að útiloka truflun. Bjóða henni brjóstið þegar hún er ekki algjörlega vöknuð. Nudda brjóstið mjúklega á meðan hún er að byrja að drekka. Prófaðu að gefa henni í hlýju baði eða prófaðu eitthvað annað sem þér gæti dottið í hug að hún kynni að meta.
Eins og ég segi þá er þetta aðeins tímabundin hegðun (eða virkar þannig) og þú getur alveg unnið á þessu. Mér finnst ótrúlegt að hún þurfi meiri mat. Þegar börn eru á þessum aldri er farið að kynna fyrir þeim fasta fæðu því þau eru tilbúin að fara að læra að tyggja og kyngja þykkari mat en mjólk. Það er ekki vegna þess að þau „þurfi“ meiri mat. Mjólkin er fyllilega næg næring fyrir þau.

Með bestu ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.