Spurt og svarað

20. mars 2006

Óvær, bara svona allt í einu

Takk fyrir góðan vef!

Ég er með eina litla sem að er að verða 4ra vikna.  Hún hefur verið rosalega vær og góð, og sem dæmi má nefna þá var hún bara 5 daga gömul þegar hún fór að sofa alla nóttina, þ.e. hún fær sér sopa milli kl.00-2 og svo aftur á bilinu kl.8-10.  Eftir morgunsopann leggur hún sig aftur til hádegis (en vaknar þó alltaf einhvern tímann fyrir hádegi og fær sér meira að drekka).

Hún drekkur vel (er samt oftast frekar snögg að því) - léttist bara um 80gr  fyrstu vikuna, og hefur svo þyngst um 250gr og svo 200gr.  En á kvöldin þá stundum verður hún brjáluð bara svona allt í einu, hún liggur kannski á brjóstinu í rólegheitum en rekur svo allt í einu upp svaka grát, og það svona sárann grát eða jafnvel spriklar eins og óð.  Þá huggar brjóstið ekki neitt og stundum er engin önnur lausn en að hætta gjöf og bara halda á henni og rugga.  Hún getur líka stundum rekið upp svona óp allt í einu í værum svefni (líka bara á kvöldin) og þá þarf líka að hugga og rugga.  Erum búin að reyna Miniform dropana en þeir virðast ekki virka.

Getur þetta verið að kvöldmjólkin (feitari mjólkin) sé að fara illa í hana eða dettur ykkur eitthvað annað í hug?  Mér finnst þetta svo erfitt þegar hún verður svona reið þegar hún er á brjóstinu, því að hún fær algeran „tremma“ og spyrnir á móti ef maður reynir að setja hana aftur á brjóstið!

Með von um svör.

Kveðja, Soffia.


Sæl Soffía!

Það er erfitt að segja um hvað það er sem er að angra dóttur þína. Það getur verið loft í maganum sem veldur magaverkjum sem lagast oftast þegar börnin ná að ropa. Einnig magakveisa sem kemur oft á svipuðum tíma, dag eftir dag, oftast á kvöldin. Oft er það vegna þess að meltingarfærin eru svo óþroskuð sem, veldur magakveisu. En ef ungbörn hafa verið að gráta dag eftir dag v/vanlíðunar - þá hefur verið ráðlagt að fara með barnið í læknisskoðun til að útiloka að það sé eitthvað að barninu.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.