Spurt og svarað

03. júlí 2010

Óværð um nætur og hægðavandamál

Sælar verið þið!

Mér datt í hug að senda á ykkur línu og kanna hvort þið gætuð ráðlagt mér um tvennt. Sonur minn sem er tæpra 8 mánaða hefur  verið mjög óvær  í svefni og er oft að vakna um nætur. Þegar hann var 7 mánaða hætti ég að gefa brjóst á nóttunni og gekk það vonum framar. Hann hefur undanfarið vaknað um nætur hálf gargandi og ómögulegur. Við gefum honum snuðið og setjum sængina utan um hann en ég gef honum hvorki brjóstið né vatn. Hann vaknar með snuðið upp í sér. Á morgnana vaknar hann snemma (sofnar á milli 20-21:00 og vaknar 6-7:00) og tekur þá brjóstið með áfergju eins og hann sé mjög soltinn. Ég hef verið að spá hvort hann þurfi gjafir á nóttunni eða hann sé að ganga í gegnum vaxtakipp. Hef samt eiginlega ekki viljað snúa til baka og byrja að gefa honum aftur á nóttunni. Á daginn er hann algjört matargat og borðar allt sem honum er boðið. Hann hefur verið í meðalkúrfunni í skoðunum.

Hitt málið sem ég vildi spyrja að var að frá því ég fór að gefa honum grauta og mat hefur hann átt mjög erfitt með að koma frá sér hægðum. Hann verður rauður í framan, grætur sárt og tárast. Það er mjög erfitt að horfa upp á þetta. Ég gef engan hrísmjölsgraut, banana, epli eða slíkt sem er stemmandi. Ég hef reynt hörfræsolíu og gef honum á hverjum degi eina teskeið af Maltextrakti  og eina teskeið af Sorbitol aukalega. Ég er ennþá að gefa honum D dropana. Ég er ekki farin að gefa kúamjólk og eini vökvinn sem hann fær  er brjóstamjólk og vatn. Hægðirnar eru harðar eins...og hrossatað liggur mér við að segja. Hann getur þó alltaf komið þeim frá sér. Hann er mjög hraustur og flottur að öðru leyti.En lumið þið á einhverjum heillaráðum upp í erminni?

Með bestu kv.Margrét .


 

Sæl og blessuð Margrét!

Það er trúlegt að þessi vandamál séu að einhverjum hluta samtengd. Miðað við lýsingar þínar þarf barnið að fá næturgjöf. Það er ekkert óeðlilegt við það að börn á fyrsta árinu þurfi næturgjöf. Sum þurfa það í nokkur ár. Það er enginn sigur unninn með því að neita börnum um hana. Hægðavandamálið tengist svo mat og vökva. Sennilega vantar hann vökva og hann vantar að fá hann á nóttunni. Mataræði getur þú reynt að hafa eins milt fyrir hægðir og þú getur. T.d. gefið sveskjur og appelsínur í meirihluta.

Með von um að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. júlí 2010.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.