Cytomegaloveira

14.12.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég er komin rúmar 12 vikur og allt gengur vel en engu að síður hefur eitt ákveðið atriði angrað mig mjög mikið. Þannig er að í verklegum veirufræðitíma fyrir ári síðan vorum við látin athuga mótefni við ýmsum veirum í okkar eigin blóði. Þar kom í ljós að ég hafði engin mótefni fyrir cytomegaloveirunni og kennarinn nefndi að það gæti verið hættulegt fóstrinu ef að ég smitaðist á meðgöngu. Ég hef reynt að lesa mér betur til um þessa veiru á netinu en upplýsingarnar virðast vera mjög mismunandi og hráar. Ef að ég smitast núna á meðgöngunni er þá öruggt að fóstrið hljóti af þessu skaða? Er eitthvað sem ég get gert sérstakt til að koma í veg fyrir að ég smitist annað en að passa upp á hreinlætið? Ég bý erlendis og á því ekki að hitta ljósmóður í fyrsta skipti fyrr en eftir 4 vikur. En mig vantar svo einhver svör.

Með fyrirfram þökk, Eva.

 

Sæl Eva og takk fyrir að leita til okkar!

Ég fletti þessu upp á netinu og fann upplýsingar bæði á Baby Center og American Pregnancy Association. Ég þýddi lauslega upplýsingarnar frá Baby Center en upplýsingarnar á American Pregnancy Association eru heldur ítarlegi svo þú getur líka skoðað þær ef þú vilt lesa nánar um þetta.

Cytomegaloveiran (CMV) er meðlimur úr herpes fjölskyldunni. Þetta er sá vírus sem oftast smitast til barna í móðurkviði og getur þá valdið heyrnartapi og fleiri vandamálum.

Talið er að um 50-80% kvenna séu smitaðar af CMV fyrir þungun. Það er með þessa veiru eins og aðrar herpes veirur að hún liggur í dvala í líkamanum eftir smit og getur orðið virk ef ónæmiskerfið veikist. Ef veira sem hefur legið í dvala (móðir hefur smitast fyrir meðgöngu) blossar upp á meðgöngu eru innan við 1% líkur á að barn í móðurkviði smitist af móður sinni og líkurnar á að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér er ennþá minni. Þannig að ef kona hefur fengið sína fyrstu CMV sýkingu að minnsta kosti 6 mánuðum fyrir þungun þá er áhættan á að smita barnið mjög lítil.

Það eru einungis 1-3% kvenna sem fá sýna fyrstu CMV sýkingu á meðgöngu. Í þeim tilfellum eru líkurnar einn á móti þrem að barnið smitist í móðurkviði og talsverðar líkur á að það valdi vandamálum hjá barninu. Talið er að um 80-90 barna sem smitast með þessum hætti verði fyrir heyrnartapi, sjóntapi, þroskaskerðingu eða eigi í erfiðleikum með samhæfingu.

CMV getur smitast:

  • Með snertingu við sýktan líkamsvessa svo sem munnvatn, þvag, hægðir, sæði, vökva úr leggöngum, blóð, tár og brjóstamjólk.
  • Með því að deila hnífapörum eða mataráhöldum með manneskju sem hefur CMV.
  • Með því að snerta sýkta líkamsvessa og snerta síðan munn eða nef.
  • Með kossum á munn og kynlífi. 

Barnshafandi kona getur smitað barn sitt í gegnum fylgju, í fæðingu eða með brjóstamjólk eftir fæðingu.  Sem betur fer er það þó þannig að flest börn sem smitast í fæðingu eða af brjóstamjólk fá engin eða fá einkenni þannig að fæðing um leggöng og brjóstagjöf ættu ekki að vera áhyggjuefni.

Á vef American Pregnancy Association voru svo upplýsingar um leiðir til að forðast smit:

  • Þvo  sér vel um hendur með sápu og vatni.
  • Viðhafa gott hreinlæti ef komist er í snertingu við líkamsvessa. T.d. ef unnið er með börnum þá er æskilegt að nota hanska þegar skipt er um bleyjur. Einnig að viðhafa góðan handþvott.
  • Ekki deila hnífapörum og mataráhöldum með öðrum.

Það er hvergi minnst á það að sleppa kossum á munninn eða sleppa kynlífi með sýkri manneskju en það eiginlega segir sig sjálft að það er ekki æskilegt.

Vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. desember 2007.