Oxycontin og brjóstagjöf

15.08.2010

Var að velta fyrir mér notkun á Oxycontin eftir keisaraskurð. Þar sem brjóstagjöf er greinileg frábending samkvæmt upplýsingum um lyfið. Er það þannig að það smitast ekki í broddinn en kemur til með að smitast í brjóstamjólkina sem myndast nokkru eftir að barnið kemur í heiminn? Er eitthvað annað sterkt verkjalyf sem gæti hentað betur?


 

Sæl og blessuð!

Oxycontin er talið nokkuð öruggt að nota í brjóstagjöf. Þá er stuðst við nýjustu upplýsingar um lyf og brjóstagjöf (Medications and Mothers Milk 2010, Hale). Upplýsingar um lyfjanotkun í almennum lyfjabókum eru ekki alltaf áreiðanlegar í tengslum við brjóstagjöf og lýsa frekar vilja lyfjaframleiðanda. Það er svo beggja blands að gefa lyf fyrstu dagana eftir fæðingu en auðvitað skiptir máli að mjólkurmagnið sem börnin fá er svo agnarlítið að lítið af lyfinu kemst til barnsins. Það eru vissulega til önnur verkjalyf sem henta ágætlega fyrir mæður eftir keisaraskurð en ég veit þó ekki hvort þau myndu henta eitthvað betur. Verkjalyfin sem gefin eru hér á landi í sængurlegu eru vandlega valin með tilliti til verkunar, útskilnaðar í mjólk og margra fleiri þátta sem máli skipta.

Vona að þetta skýri málin.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. ágúst 2010.