Spurt og svarað

13. mars 2006

Óþægindi við brjóstagjöf

Komiði sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef.

Ég á son sem er 2 og hálfs mánaða og hefur brjóstagjöfin verið til vandræða nánast frá upphafi. Ég byrjaði á að fá blæðandi sár á báðar vörtur og byrjaði að nota mexíkanahatt í kjölfarið og reyndi svo að skipta yfir í bert brjóstið þegar ég lagaðist en þá vildi drengurinn ekki taka brjóstið en ég þrjóskaðist við og hef ég ekki notað hattana í þrjár vikur en geirvörturnar eru svo aumar og mér kvíðir fyrir hverri gjöf. Ég hreinlega svitna og engist um af sársauka en svo er eins og að geirvörturnar venjist sársaukanum eða að þær dofni þegar líður á gjöfina og þá finn ég ekki eins mikið til og svo eftir hverja gjöf svíður mig svo mikið í aðra vörtuna og er sársaukin nánast óbærilegur og toppurinn á geirvörtunni verður hvítur. Ég var búin að fara til brjóstagjafaráðgjafa og hún útilokaði sveppasýkingu en sagði að ég væri með æðasamdrætti í vörtunni en á þetta bara að vera svona eftir hverja gjöf? Og til að bæta gráu ofaná svart þá er drengurinn farinn að taka upp á því að slíta sig af vörtunni eftir aðeins smá tíma af brjóstinu og þá er eins og sé verið að rífa af mér geirvörturnar. Svo grenjar hann bara en er svangur og ég þarf að halda honum við brjóstið og kostar þetta smá „barning“ hjá okkur.

Ég er dugleg að leggja hann á brjóstið og ég veit að ég er alveg að framleiða nóg því að hann dafnar mjög vel en brjóstagjafastundin er bara alls ekkert ánægjuleg og er ég næstum að gefast upp!

Með fyrirfram þökkum fyrir svörin, Sonja.

...........................................................................................................


Sæl og blessuð Sonja!

Nei þetta á ekki að vera svona eftir hverja gjöf eins og þú upplifir sársaukann. Ástæður fyrir sárum vörtum geta verið meðal annars sveppasýking eða æðasamdráttur í geirvörtunum - það eru til lyf fyrir hvoru tveggja og getur það borgað sig að prófa lyfjagjöf til að athuga hvort það lagast.  Ég er að velta því fyrir mér hvort brjóstagjafaráðgjafinn hafi ekki ráðlagt lyf vegna æðasamdráttanna - það getur breytt veröldinni hjá þér. Annað sem við gerum er að horfa á barnið taka brjóst til að meta hvort barnið taki ekki vörtuna rétt. Það er veikur möguleiki að sveppasýking leynist í brjóstum og við sjáum ekkert á vörtunni. En líkurnar eru mestar að sársaukinn sé vegna æðasamdráttanna miðað við lýsinguna hjá þér. Ég ráðlegg þér að fara aftur til brjóstagjafaráðgjafa eða hringja í hana og athuga með lyfjagjöf vegna æðasamdráttanna í geirvörtum. Einnig hefur verið ráðlagt Íbúfen verkjalyf og heitir bakstrar á brjóstið fyrir og eftir gjöf. Ég vona að þetta svari einhverju af þínum spurningum. Þú ert greinilega mjög dugleg kona.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.