Spurt og svarað

03. ágúst 2011

Óþol og Mexicanahattur

Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Þannig er að ég er með dóttur mína 7 vikna á brjósti og hún ælir ofboðslega mikið nánast allan daginn. Eftir gjöf kemur smá með ropinu en svo getur liðið klukkustund. Þá hefur hún kannski verið óvær og vill helst liggja á handleggnum á mér. Þá ælir hún þvílíkt mikið og ælan er oft mjög þykk og illa lyktandi. Hún þyngdist vel fyrstu 3 vikurnar en brjóstagjöfin byrjaði samt illa. Hún fékk ábót strax á fyrsta degi sem ég sé mjög eftir að hafa leyft og fram að 2 vikna aldri gaf ég henni  40 ml. lítra fyrir svefninn af ótta við að barnið myndi ekki þyngjast. En þegar ég hætti þá þyngdist hún alveg jafn mikið. Mér finnst hún æla sérstaklega mikið ef ég fæ mér skyr eða aðrar mjólkurvörur svo ég spyr hvort hún hafi getað fengið óþol fyrir mjólkurvörum strax í upphafi? Annars dafnar barnið að öðru leyti. Annað sem ég vil spyrja um er af hverju er svona slæmt að nota Mexicanahatt? Ég þurfti að nota hann nánast frá byrjun þar sem enginn leið var fyrir stelpuna að ná taki á vörtunni. Hún er alveg innfallinn. Ég vissi ekki um geirvörtuformara fyrr en of seint. Ég virðist mjólka vel og oftar en ekki eru brjóstin að springa á morgnana þar sem stelpan vaknar ekkert á nóttunni. Gjöfin tekur ekkert sérstaklega langan tíma og ég reyni að láta  hana fá alveg örugglega rjómann með.
Með fyrirfram þökk.

 
Sæl og blessuð!
Yfirleitt er ekki verið að amast mikið við ælum hjá ungabörnum sem þyngjast vel. Þá er svolítið eins og þau kunni ekki sitt magamál. Drekka meira en maginn rúmar með góðu móti og skilar svo því sem líkaminn þarf ekki. Ælur sem eru þykkar er sú mjólk sem hefur verið svolitla stund í maganum og er orðin hlaupin. Það er alveg mögulegt að barnið hafi fengið óþol fyrir kúamjólkurpróteinum snemma og það ætti að geta lagast ef þú tekur öll mjólkurprótein úr þínu fæði. Það getur hins vegar tekið 2-3 vikur að skila árangri.
Það er alls ekki slæmt að nota Mexicanahatt ef það er raunveruleg þörf fyrir hann. Þá er hann afar gott hjálpar tæki. Það vita allar konur með innfallnar vörtur. Hins vegar eru margar konur að nota hatt sem þurfa ekki á honum að halda. Kannski vegna þess að enginn hefur getað hjálpað þeim að leggja barnið rétt á brjóst. Þá er hatturinn veruleg truflun á brjóstagjöfinni og getur leitt til vandræða.
Með óskum um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. ágúst 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.