Óþolinmóð á brjóstinu

18.08.2009

Litla daman mín er 4 mánaða og ég er alltaf í smá veseni með hana á brjóstinu. Það hefur verið frá ca. 2 mánaða aldri. Hún þyngist vel og allt í góðu en í næstum hvert skipti sem ég legg hana á brjóst þarf ég að berjast við hana. Það virðist sem  hún hafi enga þolinmæði fyrir því að bíða eftir því að mjólkin komi. Hún sýgur fyrst smá og svo rífur sig af og grætur eða öskrar. Svo set ég hana aftur og þá sýgur hún kannski aumingjalega þrisvar sinnum og svo aftur af. Og þar sem hún hefur enga þolinmæði þá kemur engin mjólk. Svo ég hef verið að reyna að syngja fyrir hana, hrista hana og jafnvel labba með hana á brjóstinu þangað til mjólkin byrjar að renna. En þetta er orðið mjög leiðinlegt og ef það er til eitthvað töfraráð væri það vel þegið. Eða gæti verið að vandamálið sé eitthvað annað? Hún drekkur alltaf bæði brjóstin og er mjög æst á milli þess sem ég skipti um brjóst og oft endar hún gjöfina á því að gráta eða vera með einhvern pirring. Yfirleitt er það búið þegar hún ropar. Ég hugsa að þetta myndi ganga mjög vel ef hún bara fengist til þess að sjúga almennilega. Ef hún mundi leggjast á brjóst og sjúga alveg þar til að kæmi mjólk. Er mögulega hægt að fá hana til þess að gera það?

Kær kveðja og með þökk um frábæran vef!

 


Sæl og blessuð!

Það er alltaf erfitt þegar börn fara að láta svona illa við brjóstið. Sem betur fer er þetta oftast tímabundið. Það er hægt að nota ýmis ráð en það er mismunandi hvaða ráð henta hvaða barni þannig að þetta getur orðið svolítil tilraunastarfsemi hjá þér. Örvun flæðis áður en barnið kemur að brjóstinu en gott ráð ef um óþolinmæði er að ræða. Þá er byrjað á því að nudda brjóstið létt og síðan mjólkað fram í dálitla stund áður en barnið er lagt á. Að gefa liggjandi er ráð sem er gott við pirruð börn, eða gefa brjóst í baði. Og klemmutak um brjóstið er nokkuð sem stundum er hægt að nota til að stjórna mjólkurflæði betur.

Vona að þetta hjálpi þér af stað í rétta átt.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. ágúst 2009.