Spurt og svarað

25. maí 2008

Pelagjöf

Komið þið sælar.

Ég þarf að venja þriggja mánaða barn mitt af brjósti vegna þess að ég þarf að byrja að taka lyf og má ekki vera með hana á brjósti á meðan. Lyfjagjöfin stendur yfir í tvö ár þannig að það er ekki um það að tala að viðhalda mjólkinni. Nú þegar ég get ekki gefið brjóst (annars hef ég verið með börn mín á brjósti) sé ég að það er afskaplega lítið að finna á netinu frá fagfólki um pelagjöf og mikið dregið fram af ágæti brjóstagjafar miðað við pelagjöf. Það getur vel verið rétt en það gagnast mæðrum í minni stöðu afskaplega lítið. Reyndar hef ég séð margt gott á netinu frá öðrum mæðrum sem hafa þurft að hætta brjóstagjöf. Sú litla vill ekki sjá pela, ekki til að tala um og ég hef bara tæpan mánuð þar til ég byrja á lyfjunum. Má ég gefa henni að drekka úr glasi? Hvað þá um sögþörfina, mér finnst hún svo lítil og þurfa á því að halda. Hvað get ég annars gert til þess að koma henni á pelann? Það þyrfti að vera til pelagjafarráðgjöf eins og brjóstagjafaráðgjöf, vegna þess að maður fær svona óbein skilaboð um að maður eigi bara að hafa barnið á brjósti, allt annað sé annars flokks og það eru ekkert góð skilaboð til okkar sem verðum að hafa þetta svona.

Takk fyrir.


Sæl og blessuð.

Mér þykir leitt að þú skulir finna þig í þessum aðstæðum sem eru einstakar. Ég get líka trúað að það sé erfitt að finna kennslu í pelagjöf. Kannski er það af því mörgum finnst það svo sjálfsagt og einfalt að gefa barni pela. Það er það hins vegar ekki sem þeir þekkja sem hafa reynt að gefa „hörðu“ brjóstabarni pela sem það vill ekki. Þér er hins vegar alveg óhætt að leita til brjóstagjafaráðgjafa því þeir eiga að vera fullfærir um að aðstoða í svona aðstæðum. Í flestum tilfellum eru börn á þessum aldri fljót að uppgötva þægindin sem felast í hröðu flæði mjólkur. Þannig að oft er þetta spurning um að finna þá túttulögun, efni og flæðishraða sem hentar barninu. Svo þetta er bara spurning um að prófa sig áfram. Ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að reyna glas því að á þessum aldri verða flest börn klaufaleg við það. Það kemur hins vegar til greina að nota fingurgjöf. Þá er kannski verið að meina sem tímabundið millistig yfir í pela því það er öruggt að barnið mun vilja sjúga putta.

Með von um að vel gangi.            

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.