Peli fyrir barn á brjósti

27.07.2005

Sonur minn er 2 mánaða á morgun og mig langar svo að hann taki pela, svo maður getur nú aðeins skroppið frá. En hann er svo mikill klaufi á svona pela, ég er búin að prófa alls konar tegundir en það virðist eins og honum svelgist alltaf á og hann gleypi bara fullt af lofti. Ég hef prófað að gefa honum Pussycat, Avent og Nuk sem á að vera eins og geirvartan á manni, hann tekur snuð og það virðist ekki skipta máli hvaða tegund snuðið er. Áttu eitthvað gott ráð fyrir mig? Hvernig er best að venja hann á þetta?

Svo er annað hann byrjaði ekki á brjósti hjá mér fyrr en hann var um 2 vikna gamall því hann fæddist með hjartagalla og þurfti að fara til Boston í aðgerð. Hann byrjaði bara á snuði og var með næringu í æð en svo fékk hann pela sem hann tók þá í Boston en svo kynntist hann brjóstinu og hann vill ekki pela eftir það. Getur það spilað eitthvað inn í þetta að hann vilji ekki pela núna?

...............................................................................

Sæl og blessuð.

Það eru nú svo sem til aðrar aðferðir við að gefa ungum börnum en pelinn t. d. fingurgjöf. En það virðist vera þér hjartans mál að hann taki pela og það er líka í góðu lagi. Það er alveg hægt að venja hann á pela. Barn sem hefur tæknina til að sjúga snuð getur mjög auðveldlega og áreynslulaust sogið pelatúttu. Það er hins vegar spurning hvort það vilji það. Þitt barn er greinilega mjög heillað af brjóstinu sem er vel. Það getur verið af því að það fékk það svo seint en ég hef ekkert fyrir mér í því. Það sem skiptir máli við pelagjöfina er að lagið á túttunni sé svipað og á því snuði sem hann er hrifnastur af. Annað sem skiptir máli er gatafjöldinn á enda túttunnar og rennslishraðinn. Þegar hann var veikur er líklegt að þér hafi verið kennt að nota túttur með mörgum götum og hratt flæði. Það hentar honum ekki lengur og honum svelgjast þá bara á. Nú þarf hann túttu með 1 gati og þegar þú hallar pelanum eins og þú myndir gera í gjöf áttu að geta talið nokkrum sinnum milli dropanna sem detta. Það er annað sem er mikilvægt í pelagjöf svo ungra barna og það er að móðirin má hvergi nærri vera. Ef barnið heyrir í henni, finnur lyktina eða bara skynjar hana getur það látið mjög illa við túttu. Fáðu þann sem kemur til með að gefa barninu í fjarveru þinni til að gefa prufugjöf og vertu í næsta herbergi á meðan eða helst lengra í burtu þar sem þú heyrir ekki í barninu en hægt er að ná í þig fljótlega.

Með von um að ráðin hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. júlí 2005.