Pergotime og brjóstagjöf

08.01.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef :)

Hef verið að glugga í Spurt og svarað en ekki fundið svar við spurningu minni. Málið er að okkur hjónunum langar að eignast annað barn en fyrir eigum við 7 vikna stúlku. Ég átti drauma meðgöngu og fæðingu. Ég er líkamlega og andlega mjög hraust og mjólka vel og vil að hún sé allavega til 6 mánaða aldurs á brjósti. En okkur finnst að það yrði of langt á milli því maður veit aldrei hvað tekur langan tíma að verða barnshafandi aftur. Spurningin er því sú hvort Pergotime hafi áhrif á brjóstamjólkina þ.e.a.s. hvort hún minnkar eða hverfur?

Kveðja, mamman.

............................................................................................


Sæl og blessuð mamman.

Það er ekki von að þú hafir fundið svar við þessari spurningu. Það er ekki oft sem talað er um þetta lyf og brjóstagjöf í sömu andránni. Þetta eru má segja andstæðir pólar. Vinnur gegn hvort öðru. Ég get ekki fundið neitt sem bendir til slæmra áhrifa lyfsins á barnið en það hlýtur eðli síns vegna að hafa slæm áhrif á mjólkurmyndun. Þetta lyf hefur sýnt góða verkun til að koma í veg fyrir mjólkurmyndun fyrst eftir fæðingu þótt það sé ekki mikið notað í þeim tilgangi. Áhrif á mjólkurmyndunar seinna er óljósari en getur tæplega verið góð. Ég myndi ráðleggja þér að bíða í einhverja mánuði enda eru flestar konur lítt frjóar af ýmsum ástæðum á þessum tíma. Svo geturðu fengið ráðgjöf frá lækni sem sérfróður er um hormón til að finna út hvaða meðferð er heppilegust. 

Vona að þessi svör hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. janúar 2006.