Spurt og svarað

27. desember 2005

Pilsner og brjóstagjöf

Sælar ljósmæður!

Ég er með eina 2ja vikna gamla skvísu (þetta er þriðja barn) sem er búin að vera mjög dugleg á brjósti og ég að mjólka nóg fyrir hana. Það sást best um daginn þegar ljósan kom að vigta hana en þá var hún búin að þyngjast um 450 gr á einni viku!! Alla vega þá var útferðin hjá mér búin að minnka verulega en jókst svo aftur svo ljósan gaf mér 3 töflur sem auka á samdrætti í leginu, en hún sagði líka að mjólkin gæti minnkað!  Ég er eitthvað svo stressuð yfir því, svo hún sagði mér að drekka pilsner því hann gæti aukið mjólkina, og einnig að leggja hana oftar á brjóst! Mig langar að vita hvað er það í pilsner sem gerir það að verkum að mjólkin eykst. Er eitthvað fleira sem ég get gert til að mjólkin minnki ekki? Ég hef heyrt um mjólkuraukandi te.

Með kærri kveðju, ein stressuð.

..............................................................................................

Sæl og blessuð stressuð.

Það hefur ekki verið sýnt fram á neitt sérstakt í pilsner eða malti sem eykur mjólkurmyndun. Það er kannski gamalt húsráð að benda á eitthvað næringarríkt og fitandi fyrir mjólkandi mæður sem gekk illa að ná sér í næga næringu hér áður fyrr. Í raun er verið að benda á eitthvað að drekka. Og það er alveg sama hvað drukkið er bara að það sé vökvi. Það er líka mikilvægt að drekka ekki of mikið, þ.e.a.s. það á að drekka eins og þorstinn segir til um en ekki pína í sig vökva sem maður hefur ekki lyst á. Það sem þú getur gert til að mjólkin minnki ekki er að losna við þetta stress og gefa barninu eins oft og það biður um. Jú, það eru til mjólkuraukandi te sem virkar á sumar mæður en ég held þú þurfir ekki á þeim að halda. Barn sem hefur þyngst of mikið á 1 viku hefur alveg leyfi til að þyngjast rólegar í framhaldinu.

Með von um meiri slökun,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.