Pink Fit prótein í brjóstagjöf

19.06.2011
Hæ hæ!
 Ég er með barn á brjósti og er að forvitnast um hvort ég megi taka inn Pink Fit. Ég fitnaði svakalega við óléttuna og það væri fínt að prufa þetta ef ég má. Barnið er annars byrjað að fá eina teskeið af graut á dag.
 
Sæl og blessuð!
Það skiptir verulegu máli hve gömul brjóstabörn eru ef að á að huga að megrun móðurinnar. Það kemur ekki fram í þínu bréfi hve gamalt barnið er. En fyrst að það er byrjað að borða á ég von á að það sé orðið 6 mánaða gamalt. Þá er í sjálfu sér allt í lagi að fara að huga að leiðum til að létta sig. Skynsamlegast er að byrja á venjulegum leiðum sem fela í sér aukna hreyfingu og bætt mataræði með auknu grænmeti, ávöxtum og trefjum. Mörg fæðubótarefni og/eða efni sem lofa kraftaverkamegrun geta verið varhugaverð. Pink Fit á meðal annars að hraða meltingu. Það er nokkuð sem er ekki æskilegt við framleiðslu mjólkur. Þannig að ég ráðlegg þér að bíða með þetta efni þar til seinna og einbeita þér að venjulegum leiðum.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. júní 2011.