Pirraður á brjóstinu

23.09.2004

Ég á lítinn kút sem er 10 vikna og hann er alltaf svo pirraður á brjóstinu. Hann er rólegur svona fyrstu tvær mínúturnar á hvoru brjósti þegar þetta flæðir uppí hann en svo byrjar hann að sparka og boxa og bítur stundum, sleppir brjóstinu og tekur það aftur trekk í trekk og svo er grenjað. Stundum vill hann alls ekki taka brjóstið. Brjóstagjöfin er sem sagt ekki mjög gott „upplivelse“ hjá okkur. Hjúkkan segir að hann fái örugglega nóg því hann þyngist vel og pissar í allar bleyjur. Ég hélt náttúrulega að það væri ekki nóg mjólk. Eina leiðin til að fá hann til að halda áfram að sjúga er að ganga um gólf með hann á brjósti og helst að syngja fyrir hann um leið en það getur orðið svolítið þreytandi. Á tímabili fékk hann pela með, einn lítinn fyrir nóttina sem getur að sjálfsögðu hafað haft áhrif á þetta en hann hefur verið svona frá byrjun. Hann tekur snuð, en bara þegar hann er að sofna. Hann sefur vel á nóttinni en á daginn sefur hann mjög stutta dúra svona yfirleitt 30-45 mín. Með þessu áframhaldi er mjög freistandi að hætta þessu bara og fara yfir í þurrmjólk en mig langar bara svo innilega að gefa honum brjóst. Hvað á ég að gera til að fá barnið rólegt við brjóstið?

......................................................................

Sæl og blessuð Sigrún.

Yfirleitt um eða upp úr 6 vikna aldri breytist hegðun barna við brjóstið. Þetta er ákveðið þroskaferli sem þau fara í gegnum og maður vill í raun sjá. Það eru til kenningar um orsök en þær skipta ekki meginmáli hér. Hversu afgerandi eða mikil þessi hegðunarbreyting verður er mjög einstaklingsbundið. Þetta getur verið allt frá smá togi á vörtu upp í það að bæði móðir og barn virðast á fullu í líkamsrækt. Þitt barn virðist vera í líflegri kantinum miðað við lýsinguna.
Á móti kemur að oft á þessum aldri eru börn að stytta gjafirnar þannig að þetta gengur tiltölulega fljótt yfir. Það er gott að vita þetta því sumar mæður eru að reyna að þvinga barnið til að taka miklu lengri gjafir en það þarf og það getur endað með hálfgerðum slagsmálum.
Það eina sem hægt er að gera er að aðlagast þroska síns barns á eins jákvæðan hátt og unnt er. Flestar mæður finna af sjálfu sér upp einhverja aðferð sem virkar vel á þeirra barn. Þú ert greinilega búin að finna út að það að ganga um gólf og syngja virkar vel á þitt barn. Það getur verið hluti af svarinu. Þú átt eftir að finna fleiri aðferðir. Haltu endilega áfram að prófa þig áfram. Ég hef óbilandi trú á að mæður hafi þetta í sér og ekki sé hægt að kenna svona hluti.
Barnið þitt er að þyngjast vel og þrífast eins og það er kallað. Nú ertu farin að finna fyrir andlega þroskanum. Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að sjá hvaða freisting er fólgin í því að setja barnið á þurrmjólk og hætta brjóstagjöf. Þú ert í þeim sporum að vera að veita barninu þínu möguleika á bestum þroska bæði andlegum og líkamlegum. Af hverju ættirðu að vilja breyta því?

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. september 2004.