Pirringur hjá barni þegar mamman hefur blæðingar

07.08.2006

Getur verið að börn verði e-ð pirruð þegar mamman fer á túr? Ég á eina 4ja mánaða stelpu og var að fara á minn fyrsta túr (eftir fæðingu) fyrir stuttu. Stelpan mín hefur verið e-ð svo pirruð þessa daga sem ég var á túr, svo að ég var að pæla hvort það gæti tengst túrnum. Hvernig breytist mjólkin þegar maður er á túr? Getur ekki verið að hormónarnir breytist mikið og það geti farið e-ð illa í barnið? Ég vona að þú geti upplýst mig um þettta allt saman.
P.S. Ég talaði við hjúkrunarfræðing sem taldi það útilokað að pirringurinn hjá stelpunni minni væri útaf því að ég væri á túr. Eins er ég búin að
fara með stelpuna mín til læknis sem fann ekkert að henni. Ég tengi því
pirringinn túrnum. Er það kannski bara vitleysa?

Með von um svör.Sæl og blessuð.
Jú, það er rétt hjá þér. Nokkuð margar mæður finna fyrir breytingum í brjóstagjöf í tengslum við blæðingar. Það er líka rétt til getið hjá þér að þetta tengist hormónum. Það verður eilítil minnkun á framleiðslu sem sum börn eru næm fyrir og örlítil breyting á bragði. Það er hins vegar ekkert sem fer "illa" í börnin en það getur gert börn pirruð tímabundið að fá þetta ekki jafn hratt og örugglega og venjulega. Flestum finnst þetta byrja aðeins áður en blæðingarnar byrja en er svo búið að jafna sig 1-2 dögum eftir að þær hefjast. Þessu ástandi fylgir oft viðkvæmni í geðslagi (móður), pirringur, stutt í tárin o.s.frv.) og þeim líður kannski ekki eins vel í gjöfunum og venjulega.
Besta ráðið er náttúrlega að gefa barninu aðeins oftar að drekka þessa daga þar til þetta er gengið yfir og að fara vel með sig.
Vona að þetta skýri ástandið.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.