Pirruð við brjóstið

07.08.2005

Sælar og takk fyrir góðan vef.  Stelpan mín er 3ja mánaða og fyrir þremur dögum fór hún allt í einu að taka uppá því að pirrast og arga þegar ég reyni að setja hana á brjóstið.  Hún snýr sér frá geirvörtunni og vill ómögulega drekka neitt.  Það er ekki fyrr en hún er orðin afskaplega syfjuð að hún fer á brjóstið og þá fyrst með því að setja hana í gjafastellingu en stinga snuði uppí hana, rífa síðan út úr henni snuðið og skella henni á brjóstið.  Og þá drekkur hún en það virðist vera meira af því hún er of þreytt til að ibba gogg. Hvernig stendur á þessu og er hægt að leiðrétta þetta?  Líklega er rétt að taka það fram að hún þyngist eðlilega og er á kúrfu.

Með fyrirfram þökk.

..................................................................

Sæl og blessuð.


Þetta hljómar nú svolítið eins og um of hratt losunarviðbragð sé að ræða. Börn finna sér oft einhverja aðferð til að redda sér fyrstu vikurnar en svo kemur að því að þau gefast upp og fara í hálfgerð slagsmál við brjóstið eða þá hafna því. Þetta er hægt að laga með því að klípa saman brjóstið rétt utan við munn barnsins í fyrstu 2-3 mínúturnar. Það getur líka hjálpað að gefa útafliggjandi eða sitja á rúmstokk, leggja á brjóst og leggjast svo út af þannig að barnið liggi ofan á móður sinni og sjúgi upp úr brjóstinu. Það er alltaf mjög góð aðferð að gera eins og þú hefur verið að gera þ.e.a.s. gefa börnum í svefnrofunum. Önnur atriði varðandi breytta hegðun barna við 3ja mánaða aldurinn geturðu fundið annarsstaðar á síðunni.

Með von um að þetta dugi til að hjálpa,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. ágúst 2005.