D-vítamín, ráðlagður dagsskammtur og efri mörk

06.12.2011
Hversu mikið D vítamín má innbyrða á meðgöngu? Samkvæmt Lýðheilsustöð er ráðlagður dagskammtur 10 µg fyrir fullorðið fólk og óléttar konur, en efri mörk fyrir fullorðið fólk er 50 µg. Hins vegar er ekki tekið fram hver efri mörk eru fyrir óléttar konur. Ég hef verið að reyna að skoða þetta á netinu, og þar sé ég að of mikið D-vítamín geti valdið fæðingargöllum. En einnig hef ég séð að talið er að Íslendingar eigi í raun að taka meira en ráðlagðan dagskammt. Þar af leiðandi er ég rosalega óörugg með þetta.


Sæl og blessuð!

Það er ekki skrýtið að þú sért óörugg með þetta, nú þegar svo mikið er rætt um að við séum sennilega ekki að fá nægt D-vítamín. Það er alveg rétt hjá þér að ráðlagður dagsskammtur fyrir fullorðna og barnshafandi konur hér á landi eru 10 µg (400 IU) og efri mörk (það magn sem talið er óhætt að taka inn) fyrir fullorðna er 50 µg (2000 IU). Það er dálítið mismunandi milli landa hversu mikið fólki er ráðlagt að taka inn og enn meiri munur er á þessum efri mörkum, en yfirleitt eru efri mörk þau sömu fyrir fullorðna og fyrir barnshafandi konur. Í Kanada voru þessar ráðleggingar endurskoðar fyrir u.þ.b. ári síðan og þar er barnshafandi konum ráðlagt að taka daglega inn 15 µg af D-vítamíni. Efri mörkin þar eru 100 µg, fyrir alla sem eru eldri en 9 ára sem og barnshafandi konur og konur með börn á brjósti. Sums staðar er ráðlagður dagsskammtur ekki nema 5 µg og efri mörkin ekki nema 50 µg.


Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. desember 2011.

Heimild: http://www.hc-sc.gc.ca/fn-an/nutrition/vitamin/vita-d-eng.php