Spurt og svarað

11. janúar 2009

Raynaud´s fyrirbærið

Hvað er hægt að gera ef maður er með æðasamdrátt (Raynauds fyrirbæri) á vörtum? Ég er búin að vera með óbærilegan verk í báðum brjóstum í 4 vikur eða frá því að drengurinn fæddist. Eftir að hann er búinn að drekka myndast hvítur hringur á vörtunni og þá er ég með svona í fingrum líka eftir að hafa verið úti í kulda. Þá dofna alltaf tveir puttar og hvítna og það tekur dágóðan tíma að fá "líf" í þá aftur.

Kveðja, Erna.


 

Sæl og blessuð Erna.

Ef Raynaud´s fyrirbæri í vörtum hefur verið staðfest er yfirleitt byrjað á að nota heita bakstra á vörtuna þegar hún kemur út úr munni barnsins. Hann er hafður vel heitur og honum er haldið við vörtuna í 1-2 mínútur. Að því loknu er sett heitt stykki yfir brjóstið. Sumum konum gefst líka vel að nota heitan bakstur á vörtuna áður en gefið er brjóst. Með þessu er oft gefið Íbúfen reglulega 3 sinnum á dag. Síðan er byrjuð svokölluð bætiefnameðferð en þá eru teknir stórir skammtar af lýsi, kalki og magnesíum en litlir af B-6 vítamíni. Gallinn við bætiefnameðferðina er að hún tekur langan tíma að byrja að virka eða oft um 3 vikur. Ef illa gengur að ná niður verkjum með þessari meðferð eru reynd lyf sem gefin eru 3 sinnum á dag í 2 vikur. Þau virka oftast nær vel.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.