Raynaud´s fyrirbærið

11.01.2009

Hvað er hægt að gera ef maður er með æðasamdrátt (Raynauds fyrirbæri) á vörtum? Ég er búin að vera með óbærilegan verk í báðum brjóstum í 4 vikur eða frá því að drengurinn fæddist. Eftir að hann er búinn að drekka myndast hvítur hringur á vörtunni og þá er ég með svona í fingrum líka eftir að hafa verið úti í kulda. Þá dofna alltaf tveir puttar og hvítna og það tekur dágóðan tíma að fá "líf" í þá aftur.

Kveðja, Erna.


 

Sæl og blessuð Erna.

Ef Raynaud´s fyrirbæri í vörtum hefur verið staðfest er yfirleitt byrjað á að nota heita bakstra á vörtuna þegar hún kemur út úr munni barnsins. Hann er hafður vel heitur og honum er haldið við vörtuna í 1-2 mínútur. Að því loknu er sett heitt stykki yfir brjóstið. Sumum konum gefst líka vel að nota heitan bakstur á vörtuna áður en gefið er brjóst. Með þessu er oft gefið Íbúfen reglulega 3 sinnum á dag. Síðan er byrjuð svokölluð bætiefnameðferð en þá eru teknir stórir skammtar af lýsi, kalki og magnesíum en litlir af B-6 vítamíni. Gallinn við bætiefnameðferðina er að hún tekur langan tíma að byrja að virka eða oft um 3 vikur. Ef illa gengur að ná niður verkjum með þessari meðferð eru reynd lyf sem gefin eru 3 sinnum á dag í 2 vikur. Þau virka oftast nær vel.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. janúar 2009.