Spurt og svarað

20. janúar 2013

Raynaud´s syndrome

Halló!
Ég hef ekki góða reynslu af fyrri brjóstagjöf vegna verkja sem ég fékk þegar barnið var á brjósti. Geirvörturnar hvítnuðu og mér fannst þetta alltaf óþægilegt. Núna er ég að fara að eiga barn nr. 2 og var að spá í hvort ég gæti gert e-ð fyrirbyggjandi svo þetta verði ekki eins mikil pína og síðast. Kannski pínu sein að senda þetta þar sem 2 vikur eru í settan dag hjá mér.


Sæl og blessuð!
Já,þær sem þjást af Raynaud´s syndrome minnast gjarnan óþægilegra verkja sem tengjast brjóstagjöfinni. Það er hægt að undirbúa sig að einhverju leyti með því að taka reglulega lýsi, kalk og magnesíum. Þetta er partur af fæðubótameðferðinni sem beitt er eftir fæðingu þannig að ef birgðir eru góðar við fæðingu getur það stundum dugað til eða þá gregið úr einkennum. Síðan er hægt að vera í startholunum með hitabakstrameðferðina sem að mínu mati virkar alltaf best. Hún er svo einföld og þarf engar græjur nema þvottapoka og heitt vatn. Vatnið þarf að vera vel heitt (án þess að brenna)og bara er bleytt horn af þvottapokanum. Hornið er svo sett á vörtuna um leið og vartan kemur út úr barninu. Restin af þvottapokanum er svo brotin yfir. Þetta er haft í 1-2 mínútur og tekið svo af og ullarstykki sett yfir brjóstið. Það má líka beita hitabakstursmeðferðinni fyrir gjöf ef verkir eru verri í gjöfinni sjálfri. Og eins og við nánast öll vörtuvandamál í brjóstagjöf er mikilvægt að vartan fari rétt inn í munn barnsins og að barnið fái ekki snuð fyrstu 3 vikurnar. Fæðubótameðferð og lyfjameðferð er svo nokkuð sem þú getur leitað til brjóstagjafaráðgjafa með eftir fæðingu ef þess þarf.

Vona að þetta hafi náð til þín tímanlega.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. janúar 2013.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.