Raynauds og bætiefni.

11.04.2013
Sælar, og takk fyrir frábæran vef.
Mig langaði að spyrja um bætiefnameðferð fyrir Raynauds. Í öðrum þræði er minnst á að það eigi að taka stóra skammta af lýsi, kalki og magnesíum, og lítinn skammt af B-vítamíni, en hvar get ég fengið upplýsingar um skammtastærðir?
Kveðja, Ein með sársaukafullt Raynauds.
Sæl og blessuð!
Það er vissulega sársaukafullt að vera með Raynaud´s og hafa barn á brjósti. Áður en ég fer samt í bætiefnameðferðina langar mig að minnast á heitu bakstrana sem mér finnst alltaf hafa bestu áhrifin og hjálpa flestum. Sú aðferð felst í að setja snarpheitan (án þess þó að brenna)bakstur á vörtutoppinn um leið og vartan kemur út úr barninu. Þar er honum haldið í 1-2 mínútur. Þegar honum sleppir er sett hlýtt stykki yfir brjóstið og svo er reynt að halda hita á brjóstunum alltaf. Bætiefnameðferðin felst svo í að taka lýsi reglulega á hverjum degi, tvöfaldan dagsskammt. Kalk er tekið daglega 2000mg og Magnesium 1000mg. B-6 vítamín er tekið í byrjun 100-200mg. í 4 daga en svo minnkað í 25mg daglega. B-6 vítamín er þekkt fyrir að draga úr mjólkurframleiðslu ef það er tekið í stórum skömmtum en litlir skammtar gera það ekki og hafa sýnt sig að hjálpa gegn Raynaud´s. Ég vona að þetta hjálpi þér við þínu vandamáli.


Með bestu kveðjum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. apríl 2013