Ráð til að hægja flæði

15.11.2009

Komið þið sæl!

Ég á eina 4 vikna stelpu sem ælir mjög mikið og skv. hjúkku og lækni er hún líklega með bakflæði. En hún þyngist og þetta angrar hana ekki það mikið að það sé eitthvað gert í þessu. Ég vil hinsvegar reyna að gera allt til að minnka ælurnar og er að prófa ýmislegt. Ég þarf þó aðstoð við eitt og vona ég að hægt sé að aðstoða mig skriflega. Ég þarf góð ráð við að hægja á mjólkurflæðinu. Ég er alveg svakalega lausmjólka og svelgist henni oft á þegar hún er á brjósti og veit ég að hún er sjálf að reyna að stemma stigu við flæðinu hjá mér eins og að láta smella í gómnum, grípa laust og leyfa mjólkinni að flæða framhjá. Ég hef reynt að grípa fast utan um vörtubauginn til að minnka flæðið en ég er kannski ekki að gera það rétt og halla mér aftur þegar ég er að gefa en mér finnst ekkert virka. Getið þið gefið mér einhver fleiri ráð eða á ég að fá aðstoð hjá brjóstaráðgjafa upp á LSH?

Bestu kveðjur. Anna.


 

Sæl og blessuð Anna!

Helstu ráð til að hægja á of hröðu flæði er liggjandi staða í gjöf og þá helst með barnið ofan á móður. Síðan er það þessi klemma sem þú minnist á. Hún er tæknilega ekkert flókin en stundum hjálpar að láta sýna sér hana eða finna hversu fast má taka á brjóstinu. Ég á von á að þetta sé spurning um orðalag en tekið er utan um brjóstið utan vörtubaugsins eins langt hringinn og fingurnir ná. Það er svo eitt atriði í vitbót sem stundum gleymist og það er að tempra mjólkurframleiðsluna þannig að hún hæfi barninu. Það má ekki vera einhver leki eða auka framleiðsla því það eykur á þrýsting. Því þarf að stoppa allan leka og passa að framleiðsla passi barninu.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. nóvember 2009.