Spurt og svarað

09. febrúar 2005

Ráðleggingar um brjóstagjöf

Góðan daginn.

Ég er 31 árs kona og er ólétt af 3 barninu mínu. Málið er að með hin tvö þá reyndi ég og reyndi að hafa börnin á brjósti en ég bara mjólkaði ekki nóg. Ég hef kannski ekki reynt til þrautar þar sem ég var ung og vitlaus (17 og 24 ára) en ég vildi svo gjarnan vera með þetta barn lengi á brjósti. Getur einhver ráðlagt mér eitthvað í þessum efnum, ég yrði virkilega þakklát.

.......................................................................

Sæl og blessuð Íris.

Það er vonandi að brjóstagjöfin heppnist hjá þér í þetta sinn. Mér finnst þú nú eiga það inni. Ég efast ekki um að þú hafir reynt í fyrri skiptin en það er spurning hvort rétt var að staðið. Og ég tek alls ekki undir það að þú hafir verið ung og vitlaus 17 og 24 ára. Yfirleitt mjólka ungar stelpur allra kvenna best bara ef þær eru látnar í friði. Það eru oftast utanaðkomandi truflun sem verður til þess að illa gengur.

Nú þú biður um ráðleggingar sem er erfitt að veita ef maður veit ekkert um fyrri sögu. En ég get nefnt þessi almennu grundvallaratriði sem þurfa að vera til staðar til að koma brjóstagjöf vel af stað. Ef það er eitthvað annað sem er á seyði þarftu viðtal við brjóstagjafaráðgjafa.

Miðað við að barn fæðist fullburða og sprækt eftir lyfjalitla fæðingu þarf það að fara á brjóst innan 2ja klukkutíma frá fæðingu og eftir það 8-12 sinnum á sólarhring. Því oftar og lengur sem barnið sýgur brjóst fyrstu 3 dagana því bettur fer brjóstagjöfin af stað að öllum líkindum og því meiri verður mjólkurframleiðslan. Það sem líklegt er til að tefja fyrir mjólkurframleiðslu eru löng hlé milli gjafa, næturaðskilnaður frá barni, ábót hvort sem hún er lítil eða mikil og snuð. Mikil nánd við barn og bein húð við húð snerting er alltaf af hinu góða og örvar mjög hormónaflæði þeirra hormóna sem þarf til mjólkurframleiðslu. Og það er ekki verra að vera vel undirbúinn, vel fræddur og fullur sjálfsöryggis. Brjóstagjöf hjá konum er svo mikið andlegt dæmi og þær þurfa að trúa því statt og stöðugt að þær geti þetta og ekki nóg með það heldur að þær fari létt með þetta.

Með bestu óskum um ánægjulega og langa brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. febrúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.