Spurt og svarað

31. mars 2007

Ráðleggingar þeirra sem eru eldri og reyndari

Hæ, hæ!

Ég var að eignast mitt fyrsta barn í lok desember. Móðir mín og tengdamóðir hafa verið duglegar við að ráðleggja hitt og þetta varðandi umhirðu og umhyggju barnsins. Ég hef yfirleitt tekið hæfilega mikið mark á því sem þær hafa verið að ráðleggja mér þar sem ráðleggingarnar hafa oft á tíðum stangast á við þær ráðleggingar sem ég hef fengið frá fagfólki s.s ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Ég hef hingað til verið ferlega ánægð með mig þar sem ég virðist alveg vera að gera rétta hluti miðað við það sem ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa verið að segja mér en stundum koma tímar þar sem maður finnst maður vera slæm móðir. Ástæðan fyrir því að ég er að senda inn fyrirspurn er sú að ég var einmitt að fá ráðleggingu og það eru alveg 2 vikur þar til ég fer næst með litluna mína í skoðun og ég er ekki sammála þeirri sem er að ráðleggja mér en vil samt vera viss því ég vil alls ekki vera gera dóttur minni eitthvað slæmt. Mér var ráðlagt að taka inn járn þar sem ráðleggjandanum þótti dóttir mín vera eitthvað föl. Mér finnst hún reyndar ekki vera neitt föl. Ég hef aldrei tekið járn, hef aldrei þurft á því að halda ekki einu sinni á meðan meðgöngunni stóð. Ég tek fjölvítamín og lýsi og ég reyni að borða hollan og fjölbreyttan mat og tel að ég fái alveg nógu mikið járn úr fæðunni og frá vítamínunum og þ.a.l. nái ég alveg að fullnægja járnþörf dóttur minnar. Hún er á brjósti og dafnar hún mjög vel, fylgir vaxtarkúrfu og er mjög athugul og aktíf. Mín spurning er sú, er ekki óþarfi að taka auka járn ef að okkur líður báðum vel? Ætti ég ekki frekar að láta ath. hjá lækni fyrst hvort að ég þurfi að taka járn áður en ég fer að úða í mig járni?

Mér var síðan líka ráðlagt að gefa henni soðið vatn með brjóstamjólkinni á kvöldin þar sem sú sem ráðlagði mér héldi að hún yrði svo þyrst og vatnið mundi þá slá á þorstann. Er þetta ekki óþarfa aukavinna? Hún vill reyndar drekka oftar á kvöldin en er þá ekki í góðu lagi að gefa henni þá bara brjóstið? Afsakið hvað þetta er orðið langt hjá mér en maður verður stundum svo ráðvilltur og maður vill barninu sínu bara það besta. Ætti ég kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af þessum ráðleggingum sem ég er að fá og treysta meira á manns eigins innsæi og treysta því að maður sé að gera rétt?

Kærar kveðjur, Anna ráðvillta.


Sæl og blessuð Anna ráðvillta.

Það er afskaplega skiljanlegt að nýorðnar mæður í dag verði ráðvilltar miðað við allt sem á þeim dynur. Ég er mjög ánægð með að þér skuli detta í hug að treysta meira á eigið innsæi. Það hefur mér fundist vanta. Flestar mæður finna fyrir því fljótlega með nýtt barn að þær eru farnar að geta lesið þarfir þess manna best. Þetta er mjög eðlilegt þar sem þær eru jú með barninu allan sólarhringinn og hin einstöku tengsl milli móður og barns hafa myndast. Þær geta því treyst eigin innsæi. Ráðleggingar fagfólks og annarra eru meira til stuðnings og hjálpar ef óöryggi er ríkjandi. Þegar mismunandi ráð eru gefin við sama atriðinu verður að líta þau sem tillögur sem maður velur úr það sem maður sjálfur telur henta.

Varðandi járnið þá er almennt ekki talin ástæða til auka járntöku. Það þarf þá að vera fyrir hendi ástæða t.d. lélegt fæði, mældur járnskortur o.s.frv. Það er eðlilegt hjá hjúkrunarfræðingi að ræða járn og vítamíntöku ef mikill fölvi og slappleiki er sjáanlegur. En þetta er eins og annað bara tillaga. Þú metur ástandið og ákveður.  

Varðandi vatnið þá er það svolítið annar handleggur. Vatn er ábót og það er á alheimsvísu ekki mælt með neinni ábót við brjóstagjöf fyrstu 6 mánuði barnsins. Vatnsábót þynnir mjög út fæði barnsins og það er ekki talið heppilegt fyrir börn að fá útþynnt fæði svo snemma. Brjóstin framleiða sérhannaðan vökva til að slá á þorsta barna. Það er formjólk sem kemur í byrjun hverrar gjafar. Ef börn eru óvenju þyrst kalla þau eftir mörgum stuttum gjöfum og fá þar með mikla formjólk. Vona að þú hafir fengið svör við þínum spurningum.

Haltu áfram að treysta á eigið innsæi. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.