Spurt og svarað

31. ágúst 2006

Ráðvillt

Ég á 5 vikna gamlan dreng sem eftir mjög erfitt og langt fæðingarferli var tekinn með bráðakeisara.  Fyrstu tvö skiptin sem hann var vigtaður hér heima þyngdist hann aðeins um 100 gr á viku en síðustu vikuna þá náði hann að þyngjast um 200 gr en það var eftir að hann hafði fengið 30-60 ml í ábót næstum hvern dag vikuna áður. Hjúkrunarfræðingurinn ráðlagði ábótina.  En ég hef séð hér á síðunni að það er mikil áhersla á að gefa ekki þurrmjólk ef barnið er á brjósti og þau skilaboð jafnvel gefin að þú sért að gera illt verra með því að fara þá leiðina til að róa og næra barnið. Af hverju þetta ósamræmi?  Af hverju má ekki gefa barninu þurrmjólk eftir að brjóstið hefur verið reynt? Á barnið frekar ekki að fá að borða? Ég hef  reynt að gefa honum oftar, fer jafnvel yfir 14 gjafir á dag, lengja gjafirnar, passa stellingarnar o.s.frv., allt til að reyna að örva framleiðsluna en á 1-2ja daga fresti virðist brjóstið tæmast og barnið er sársvangt. Það er mjög óþægilegt að vera að fylgja ráðleggingum en finnast eins og maður sé að gera eitthvað rangt vegna ósamræmis í upplýsingum. Þess vegna spyr ég spurninganna hér fyrir ofan.

Kveðja, „ein ráðvilt“


.

Sæl og blessuð „ein ráðvillt“.

Ég veit vel að þetta getur verið ruglingslegt. Það þarf samt ekki að vera það. Nýburar og ungbörn eiga að fá brjóstamjólk sé þess nokkur kostur. Ef það gengur ekki getur þurrmjólk hjálpað tímabundið eða til langframa. Það sem fyrst og fremst er gagnrýnivert er að of oft er öllum brjóstagjafavandamálum svarað með þurrmjólk. Það er alveg sama hvort það eru aumar vörtur, óvært barn, lélegt sog hjá barni, léleg þyngdaraukning eða hvað annað. Svarið er alltaf: Gefðu þurrmjólk. Fólk sem annað hvort hefur ekki þekkingu eða nennu til að laga vandamálið þykir það alltaf besta lausnin. Flestöll vandamál við brjóstagjöf má laga, yfirleitt með tiltölulega einföldum aðferðum. Þar með er ekki sagt að þau megi laga öll. Og eins og fram hefur komið getur þurft að grípa til þurrmjólkur í einstaka tilfellum. Það virðist líka vera að sumt fólk haldi að þurrmjólkurgjöf trufli brjóstagjöf ekki. Það er rangt. Þurrmjólkurgjöf á fyrstu vikum eftir fæðingu truflar alltaf, mismikið þó. Oft veldur hún mæðrum erfiðleikum sem hægt hefði verið að komast hjá og stundum verður hún til þess að mæður komist aldrei aftur í fulla brjóstagjöf. Samkvæmt rannsóknum hafa konur sem byrja ábótargjöf snemma yfirleitt börn stutt á brjósti. Fimm vikur er ekki langur tími í brjóstagjöf og það er ennþá tími fyrir þig að snúa þróuninni við ef þú vilt. Þú þarft bara að finna aðila sem hefur þekkingu og áhuga á að hjálpa þér og vera tilbúin til að leggja á þig vinnu í nokkra daga.

Vona að málin hafi eitthvað skýrst. 

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. ágúst 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.