Regluleg brjóstagjöf

20.12.2005

Nú er alltaf verið að tala um einhverja reglulega brjóstagjöf þ.e að börnin séu alltaf að drekka á svipuðum tíma frá degi til dags og jafn margar gjafir alla daga. Ég hef hinsvegar aldrei spáð í þetta. Mín þriggja mánaða drekkur bara þegar hana langar í sopa, þyngist eðlilega er kát og glöð og ég aldrei fengið óþægindi í brjóstin. Getur kannski þetta óskipulag haft vond áhrif þegar ég fer að gefa henni að borða?

...................................................................................

Sæl og blessuð.

Í raun er þetta frá náttúrunnar hendi miklu eðlilegra fyrirkomulag hjá þér. Börn eiga að fá að drekka þegar þau langar til og það ætti helst ekki að vera til klukka á heimilinu til að fylgjast með. Hitt er svo annað mál að meirihluti barna dettur niður í einhverskonar reglu. Þá á ég við að sumar gjafir á sólarhringnum eru gjarnan á svipuðum tíma dag eftir dag. Sum finna sér þó aldrei neinar slíkar venjur og það er bara allt í lagi. Það er verst ef þetta stangast á við eitthvað í þessu „rútíneraða“ þjóðfélagi sem við búum í. Mér finnst ólíklegt að þetta hafi áhrif þegar þú ferð að gefa að borða. Þá dettur hún væntanlega inn í venjur fjölskyldunnar. Hún fær að borða þegar fjölskyldan borðar dag eftir dag og venst því bara.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. desember 2005.