Spurt og svarað

20. desember 2005

Regluleg brjóstagjöf

Nú er alltaf verið að tala um einhverja reglulega brjóstagjöf þ.e að börnin séu alltaf að drekka á svipuðum tíma frá degi til dags og jafn margar gjafir alla daga. Ég hef hinsvegar aldrei spáð í þetta. Mín þriggja mánaða drekkur bara þegar hana langar í sopa, þyngist eðlilega er kát og glöð og ég aldrei fengið óþægindi í brjóstin. Getur kannski þetta óskipulag haft vond áhrif þegar ég fer að gefa henni að borða?

...................................................................................

Sæl og blessuð.

Í raun er þetta frá náttúrunnar hendi miklu eðlilegra fyrirkomulag hjá þér. Börn eiga að fá að drekka þegar þau langar til og það ætti helst ekki að vera til klukka á heimilinu til að fylgjast með. Hitt er svo annað mál að meirihluti barna dettur niður í einhverskonar reglu. Þá á ég við að sumar gjafir á sólarhringnum eru gjarnan á svipuðum tíma dag eftir dag. Sum finna sér þó aldrei neinar slíkar venjur og það er bara allt í lagi. Það er verst ef þetta stangast á við eitthvað í þessu „rútíneraða“ þjóðfélagi sem við búum í. Mér finnst ólíklegt að þetta hafi áhrif þegar þú ferð að gefa að borða. Þá dettur hún væntanlega inn í venjur fjölskyldunnar. Hún fær að borða þegar fjölskyldan borðar dag eftir dag og venst því bara.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.