Reykingar og brjóstagjöf

29.07.2005

Ég hef alltaf haldið því fram að reykingar með barn á brjósti séu jafn slæmar og á meðgöngu þ.e að barnið fái eiturefnin í gegnum móðurmjólkina og hef verið frekar hneykslunargjörn þegar ég verð vitni að ótrúlega mörgum mæðrum sem að byrja að reykja aftur um leið og barnið er fætt. Hins vegar hef ég lent í rökræðum við reykjandi mæður um þetta og halda þær flestar því fram að þetta sé skaðlaust. Mig langar sem sagt að vita hvort ég hef rangt fyrir mér þ.e berast eiturefni tóbaksins í móðurmjólkina?

Kveðja.

...........................................................................

Sæl og blessuð.

Það er ekki rétt að reykingar séu jafn slæmar á meðgöngu og með barn á brjósti. En það er heldur ekki rétt að þær séu skaðlausar þegar barn er á brjósti.

Eftir að barnið er fætt fær það ekki lengur nikótín og fleiri efni með blóði móður til naflastrengs. En nikótínið berst með blóði móður til brjóstamjólkurinnar í einhverju magni og þar ofan á bætist að það getur þurft að anda að sér tóbaksreyk þegar móðirin reykir. Það er alltaf mælt með að mæður reyki ekki á meðan barn er á brjósti en ef þær geta ekki hætt (tóbak er eitt mest ávanabindandi efni sem til er) þá ættu þær að reykja eins lítið og þær geta og hafa barnið á brjósti. Þær eiga að reyna að forða barninu frá tóbaksreyk og reykja annars staðar en það er. Þar að auki er mælt með að reykja eftir gjöf.

Það sem er aðalatriðið í þessu sambandi er að barnið sé á brjósti. Rannsóknir sýna að börn mæðra sem reykja eru hraustari ef þau eru á brjósti en ef þau fá þurrmjólk og þar munar töluvert miklu. Vörnin gegn sýkingum og sjúkdómum virkar eftir sem áður.

Vona að þetta svar dugi í bili.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. júlí 2005.