Spurt og svarað

12. nóvember 2006

Reykingar og brjóstagjöf

Sælar og þakka ykkur fyrir frábæran vef.

Sagt er að gefa megi brjóst eftir að áhrif áfengis eru horfin en hvernig er þetta með sígarettur? Þá er ég ekki að tala um reykingar að staðaldri heldur eina rettu við sérstök tilefni. Hve langur tími er æskilegt að líði áður en maður gefur barninu brjóst?

 


 

Sælar!

Mig langar að byrja á því að þakka fyrir mjög góðan vef :)

Ég reykti áður en ég varð ólétt en hætti um leið og ég fékk jákvæða óléttuprufu en það var á fjórðu viku og mér fannst það minnsta mál í heimi. Það sem mig langar að vita er hvort að það sé í lagi að fá sér eina og eina sígarettu þótt maður sé með barn á brjósti. Ég hef lesið svörin við sambærilegum fyrirspurnum hér og finnst þau ekki svara mér, í þeim er áherslan á það að ekki sé reykt yfir börnunum en það er eitthvað sem ég mundi aldrei gera og reykingar munu aldrei vera leyfðar inná mínu heimili. Ég var líka að velta þessu fyrir mér í samanburði við áfengisneysluna því að áfengið virðist, samkvæmt svörum hér á vefnum, fara fljótt úr brjóstamjólkinni. Ég hefði haldið að það væri svipað með reykingarnar þ.e. að það væri þá í lagi að fá sér bjór og reykja eitt kvöldið og gefa svo barninu brjóst daginn eftir.  Spurning mín er semsagt í stuttu máli sú hvort skaðlegu efnin í sígarettureyknum berist í brjóstamjólkina og ef svo er hversu lengi staldra þau við?

Með fyrirfram þökk, verðandi móðir.

 


 

Sælar!

Nikótín hefur 95 mínútna helmingunartíma sem þýðir að eftir þann tíma hefur það minnkað um helming í blóðinu. Það er ágætt að hafa það í huga. Við hobbýreykingar er þá hagstæðast að reykja strax eftir að gefið er brjóst þannig að það líði 2-3 klst fram að næstu gjöf. Þetta er stuttur helmingunartími miðað við mörg lyf. Það er líka kostur að ýmis óhreinindi úr reyknum sitja eftir í lungunum og ná því aldrei yfir til barnsins og þess vegna er líka mikilvægt að reykja ekki yfir barninu. Þótt ég mæli reykingum auðvitað aldrei bót þá hefur ein og ein sígaretta ekki mikil áhrif ef rétt er að staðið. Það er talið hagstæðara heilsufarslega séð fyrir barnið að mæður sem reykja jafnvel mikið séu með þau á brjósti frekar en á pela.

Vona að þetta svari spurningunum.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.