Spurt og svarað

13. desember 2008

Reykingar og brjóstagjöf

Ég vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef sem hefur bjargað manni úr ýmsum krísum. Ég er með rosalegt samviskubit yfir reykingum.Þannig er mál með vexti að ég reykti þegar ég komst að því að ég væri ófrísk. Það reyndist mér lítið mál að hætta þessum óþverra fyrir litlu baunina mína sem nú er orðin 3 mánaða heilbrigð og yndisleg stelpa. Hinsvegar féll ég fyrir skemmstu og samviskubitið er gjörsamlega að drepa mig. Mér finnst ég vera versta mamma í heimi og á í hinu mesta basli með að hætta þessum viðbjóð. Mig langar að forvitnast hversu mikil áhrif þetta hefur á barnið mitt. Aðsjálfsögðu veit ég að þetta er slæmt fyrir hana að öllu leyti en hversu slæmt? Ef ég t.d. næ að hætta gæti hún þá átt á hættu að fara í fráhvarf? Hún er aldrei nálægt mér þegar ég fæ mér smók og ég reyni að skrúbba af mér lyktina áður en ég fer að annast hana. Ég reyki að meðaltali kannski 3 sígarettur yfir daginn og reyni eftir fremsta megni að gera það þegar hún er nýbúin að drekka. Svo á kvöldin fæ ég mér kannski 2 sígarettur og mig langar að vita hvort það sé farið úr mjólkinni þegar hún fær að drekka seint um nóttina.

Með fyrirfram þökk. Ein með rosalega vanlíðan.

p.s. hún hefur lítið breyst - er ennþá sama litla ljósið.


Sæl og blessuð!

Þetta er mál sem þú átt við sjálfa þig og ég get lítið hjálpað með reykingarnar sem slíkar. Það er erfitt að lifa í stöðugu samviskubiti og ég vildi að hægt væri að losa þig við það. Ég get bent þér á að það eru ýmsir aðilar tilbúnir að hjálpa fólki til að hætta að reykja. Þetta eru þó engar stórreykingar og miklu máli skiptir fyrir barnið að þú reykir ekki yfir því og reykir eftir brjóstagjöf.

Það eru ýmis áhrif af reykingum og erfitt að henda reiður á þeim nákvæmlega. Ég veit til dæmis ekki hvort hætta er á að hún fari í fráhvarf. En varðandi hvort farið sé úr mjólkinni um nóttina þá ertu væntanlega að tala um nikótínið. Já, það er farið en það er mörg önnur efni sem minna er vitað um. Nikótínið er þó að sjálfsögðu aðal eitrið.

Vona að svarið hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.