Spurt og svarað

31. ágúst 2005

Reynslusaga af brjóstagjöf

Þannig er mál með vexti að eldra barn mitt tók aldrei brjóst og ég upplifði mig ofboðslega misheppnaða móður af þeim sökum. Meðgangan og fæðingin gekk eins og í lygasögu og það var næg brjóstamjólk, eiginlega allt of mikil. Nema hvað, barnið harðneitaði að taka brjóstið sama hvað reynt var í 3 vikur. Ljósmóðirin reyndi hvað hún gat og það endaði með því að ég og barnið grétum í kór. Barnið var svangt og ég var „misheppnuð“. Einn daginn ákvað ég bara að standa ekki í þessu lengur, ég varð mér úti um AVENT brjóstapumpu og mjólkaði mig eins og herforingi og gaf barninu brjóstamjólkina svo beint úr pelanum. Ég ætla ekki að lýsa því hvað heimurinn breyttist. Eftir þetta mjólkaði ég mig á 3 - 4 tíma fresti og gaf barninu mjólkina. Barnið fékk mjólkina þ.e. brjóstamjólkina og ég upplifði mig ekki jafn misheppnaða móður. Ég gat fyllt heilu pelana á örskammri stundu og við héldum þessu svo áfram í rúma 9 mánuði. Við þurftum aldrei að nota þurrmjólk og barnið fékk fyrst fasta fæði um 6 mánaða aldurinn auk þess sem pabbinn gat tekið meiri þátt í umönnun barnsins. Á einu augabragði var eins og að heimurinn breyttist, allt var svo hljótt og öllum leið svo vel. Það vita jú allar mæður hversu erfitt er að hlusta á barnsgrát og geta ekkert gert. Með þessari sögu vil ég bara benda á að það er oft hægt að gera aðrar ráðstafanir og það er hægt að  gefa börnum brjóstamjólk þó svo að hún komi ekki alltaf beint úr brjóstinu sjálfu, þó það henti eflaust langflestum best.

Einnig vil ég benda á það að ljósmæður og fleiri í heilbrigðisgeiranum leggja oft svo mikla áherslu á að allar konur gefi brjóst og það sé það allra besta fyrir barnið (sem það kannski er) að fallið fyrir þær konur sem að einhverra hluta vegna geta ekki eða bara hreinlega vilja ekki hafa börn sín á brjósti verður svo hátt að þær halda að þær séu að gera börnum sínum eitthvað slæmt með því að nota þurrmjólk eða eitthvað annað en brjóstamjólk. Það getur haft mikil áhrif á sálarlíf þessara kvenna og sjálfstraust þeirra gagnvart þessu nýja og stórkostlega hlutverki minnkar sem getur haft verri afleiðingar að mínu mati en það eitt og sér að barnið fari á mis við brjóstamjólkina. Mér finnst eiginlega að þeim konum sem einhverra hluta vegna gefa ekki brjóstamjólk ætti að vera sýndur meiri stuðningur svo að upplifun þeirra af móðurhlutverkinu verði jafn stórkostleg og hinna.

Með þessum línum er ég alls ekki að lasta „náttúrulega brjóstagjöf“ á neinn hátt, heldur bara að segja mitt álit á þessum málum og benda á að það eru til fleiri leiðir og ekkert barn er verra þó svo að það hafi farið á mis við þessa „náttúrulegu brjóstagjöf“.

.................................................................................

Sæl og blessuð.

Það var gott hjá þér að skrifa þína sögu og hún getur kannski hjálpað öðrum konum.

Þegar skilgreind er brjóstagjöf barna er ekki gerður greinarmunur á hvort þau fá mjólkina beint úr brjóstinu eða mjólkaða brjóstamjólk gefna á annan hátt. Þau eru bara talin á fullri brjóstagjöf eða brjóstagjöf að hluta sem þýðir að þau fá bæði brjóstamjólk og þurrmjólk. Það er líka staðreynd að konur sem reyna brjóstagjöf þrátt fyrir erfiðleika þurfa að hafa mun meira fyrir sinni brjóstagjöf en þær konur sem gengur vel hjá. Þær eru því engu síðri hetjur. Það verður alltaf takmark heilbrigðisstétta og yfirvalda að sem flest börn fái notið brjóstamjólkur eins mikið og lengi og aðstæður leyfa hverju sinni einfaldlega að því að það er talin heppilegasta næringin fyrir þau. Það vita þó allir að það verður aldrei 100% frekar en annað í þessu lífi. Ég er líka sammála því að konum sem gengur illa með brjóstagjöf, hætta henni snemma, geta ekki haft á brjósti eða vilja það ekki eiga skilið fullan stuðning og skilning heilbrigðisstarfsfólks og þurfa stundum jafnvel meiri hjálp en aðrar konur. En ég vil líka minna á annan hóp kvenna. Það eru konur sem hafa óvenjulega lengi á brjósti miðað við normið í þjóðfélaginu. Kannski 2-5 ár. Þessar konur verða fyrir aðkasti og leiðinda athugasemdum frá fólki og margar hverjar hverfa inn í skáp með sína brjóstagjöf með skömm og vanlíðan. Þessar konur þurfa líka stuðning. Það geta ekki allir verið eins og það er mikilvægt að sætta sig við hæfileika sína og annmarka alveg eins og maður á að sýna skilning kostum og göllum allra annarra.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.