Spurt og svarað

27. júlí 2005

Rop hjá brjóstabörnum

Ég á rúmlega 2ja vikna dóttur sem hefur verið á brjósti frá fæðingu og það gengur mjög vel.  Hún er dugleg að drekka og virðist vera að fá alveg nóg. Mér finnst hún hins vegar ropa mjög sjaldan og veit eiginlega ekki hvernig hún losnar við loft eftir að hafa fengið að drekka.  Eftir hverja gjöf legg ég hana á bringuna á mér og strýk henni um bakið og hún steinsofnar yfirleitt þannig án þess að ropa. Ég sé stundum þegar ég legg hana niður eftir gjöf að hún er með eitthvað loft sem hún þarf að losna við en ég veit eiginlega ekki hvernig ég get hjálpað henni við það.

...................................................................................

Sæl og blessuð.

Brjóstabörn eru fræg fyrir að vera afskaplega litlir roparar. Ef þau eru snjöll í að grípa vörtu rétt og hafa gott sog og góðan takt þá er oft svo að þau fá mjög lítið loft í sig. Það er í sjálfu sér formsatriði að bjóða þeim að ropa eftir gjafir og meira gert af vana. Yfirleitt á maður ekki von á neinu. Mörg brjóstabörn ropa ekkert eða þá mjög lítið. Það er í mjög góðu lagi. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að vindverkir hrjái svona lítinn ropara. Ef þér finnst henni líða illa prófaðu þá að hafa hana lóðrétta í nokkrar mínútur og leggja hana svo á bakið eða hægri hliðina.

Með alúðarkveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.