Spurt og svarað

16. júlí 2005

Roði í kringum geirvörtur

Sælar!

Sonur minn sem er rúmlega sex mánaða og hefur verið á brjósti frá fæðingu. Allt hefur gengið vel hingað til og hann hefur dafnað vel. Fyrir stuttu fékk hann tvær tennur eins og vera ber hjá  börnum á þessum aldri. Um sama leitið fór að bera á roða í kringum geirvörturnar hjá mér. Þetta eru ekki sár en svona roði sem svíður stundum í. Hvernig stendur á að þetta gerist hjá barni sem er búið að vera svona lengi á brjósti ? Geta tennurnar verið ástæðan fyrir þessu eða hvað? Ég get ekki fundið að hann sé að taka brjóstið eitthvað öðruvísi en veit það svo sem ekki alveg fyrir víst og ég hef ekki fundið að hann sé að bíta mig. Ég hef borið Lansino brjóstakrem á þetta og reynt að viðra þau eins og kostur er. Spurningarnar eru semsagt:

  1. Er eðlilegt að þetta gerist hjá barni sem er að taka tennur?
  2. Hvað get ég gert til að laga þetta?

Kveðja, mamma.

......................................................................

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina!

Tanntöku barna fylgja oft einhver óþægindi eins og smá þroti eða bólga í gómunum. Sumum börnum finnst þá gott að sjúga brjóstið. Við það að barnið taki tennur getur afstaða þess til geirvörtunnar breyst, þannig að drengurinn þinn getur verið að taka vörtuna eitthvað öðruvísi og þannig valdið núningi sem getur leitt af sér roða og eymsli í geirvörtunni. Eins getur sveppasýking valdið roða á geirvörtunni en þá koma oft stingir í brjóstin í lok gjafarinnar. Þá væru líka einkenni sveppasýkingar í munni drengsins eins og  roði, hvít skán eða hvítir flekkir.
Ef þú hefur áfram roða á geirvörtunni og óþægindi við brjóstagjöfina skaltu endilega hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa. Því það er mikilvægt að þetta ástand vari ekki lengi svo brjóstagjöfin geti verið ánægjuleg.

Kær kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.