Spurt og svarað

25. febrúar 2008

Sakna brjóstagjafarinnar

Ég var með dóttur mína sem nú er 7 vikna á brjósti í 5 vikur. Það gekk allan tímann mjög illa og það var allt að. Ég mjólkaði lítið, hún var alltaf svöng, við vorum báðar með þráláta sveppasýkingu og ég er með Raynauds sem orsakaði svo mikinn sársauka eftir hverja gjöf og kuldinn í janúar gerði allt illt verra. Ég gat ekki gefið henni því ég kveið svo fyrir hverri gjöf og fann svo mikið til og hún var pirruð því hún fékk ekki nóg úr brjóstinu og meiddi mig þá. Eftir að hafa reynt allt til þrautar hætti ég með því að trappa mig niður. Hún hafði fengið þurrmjólk sem ábót frá fæðingu sem var alltaf að aukast, svo hún var alls ekki óvön henni. En þegar ég var komin niður í ca. 3 gjafir á sólarhring og var að hætta þessu þá leið mér betur og fannst hún líka drekka miklu betur, t.d. á nóttunni. Þá m.a.s. fékk hún nóg og svaf lengi og vel eftir einungis brjóstamjólk. En þar sem skilaboðin sem ég fékk voru alltaf á þá leið að það væri "allt eða ekkert", að barnið væri bara annað hvort á brjósti eða pela, þá ákvað ég að hætta brjóstagjöfinni þar sem ég gat það ekki lengur og ég fékk pillur til að þurrka mig upp. Ég fékk engar upplýsingar um það að ég gæti haldið áfram með hvort tveggja. Ég var sátt við þá ákvörðun þá enda búin að hugsa málið til enda, en nú tveimur vikum seinna líður mér öðruvísi, líklega af því að loksins líður mér vel í brjóstunum. Þegar ég er í sturtu eða baði og sé að það vætlar ennþá úr brjóstunum þá finn ég fyrir miklum tómleika og söknuði og sé eftir því að geta ekki gefið henni brjóst. Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef ég setti hana á brjóstið núna? Er þetta kannski hluti af einhvers konar fæðingarþunglyndi sem ég finn fyrir?

 


 


Sæl og blessuð.

Það er sorglegt að heyra hversu illa þetta hefur gengið hjá þér. En ef að þú saknar brjóstagjafarinnar þá er um að gera að byrja hana aftur. Það er ekki miðað við „allt eða ekkert“ Það er í hverju tilfelli fyrir sig val kvenna hvernig þær hafa þetta. Mörgum finnst flókið eða erfitt að vera með barn bæði á brjósti og pela en alls ekki öllum. Á seinni hluta brjóstagjafar eru konur t.d. með barn á 1-2 brjóstagjöfum á dag á móti mat og/eða pela. Þannig getur það gengið vikum eða mánuðum saman. Yfirleitt er frekar talað um regluna „eitthvað er betra en ekki neitt“. Prófaðu að leggja barnið á brjóst x 1 á dag í nokkra daga. Örvaðu brjóstin þar fyrir utan með því að mjólka vörturnar t.d. í baði og fyrir svefninn. Sjáðu til hvernig gengur og hvernig barnið tekur þessu. Ef vel gengur geturðu bætt annarri gjöf við o.s.frv.

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. febrúar 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.