Spurt og svarað

12. desember 2007

Samdráttarverkir við brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Núna geng ég með mitt fjórða barn. Yngsta dóttir mín er rúmlega árs gömul og þegar ég var með hana á brjósti fyrstu dagana eftir fæðingu fékk sé svo heiftarlega samdráttarverki að ég bókstaflega sá stjörnur og það var nærri því liðið yfir mig, maðurinn minn þurfti að styðja mig í rúminu til að ég liði hreinlega ekki útaf. Þetta var ekki svona slæmt með eldri börnin en samt sem áður miklir verkir og sársaukaþröskuldur minn er býsna hár. Finnst eins og þetta versni með hverju barni, getur það verið? Gæti ég mögulega fengið verkjalyf til að koma í veg fyrir þennan gríðarlega sársauka ef tilfellið verður það sama í þetta skiptið?

Er dálítið kvíðin fyrir brjóstagjöfinni vegna þessa.

Bestu kveðjur.

 


 

Sæl og blessuð!

Slæmu fréttirnar eru þær að það er vel þekkt að samdráttarverkir eftir fæðingu verði verri með hverju barni. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er alveg sjálfsagt að taka inn verkjalyf vegna þessara verkja - ekki hika við það. Íbúfen og Panodil verka vel á þessa verki og stundum gefum við konum bæði Íbúfen og Panodil því það virkar sérlega vel saman. Það getur líka hjálpað að hafa hitapoka við bak og/eða kvið. Þú skalt endilega ræða þetta við ljósmóðurina sem tekur á móti hjá þér og um að gera að taka bara inn verkjalyf strax eftir fæðinguna. Þú getur svo tekið reglulega inn verkjalyf fyrstu dagana til að þér líði sem best.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.