Spurt og svarað

31. ágúst 2006

Samviskubit

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef!

Þannig er mál með vexti að ég á litla dóttur sem er rúmlega 6 mánaða. Hún er afskaplega góð og hamingjusamt lítið barn, hefur sem til dæmis sofið alla nóttina frá því að hún var fjögurra daga gömul.

Hún hefur bara verið á brjósti og fékk aldrei neina ábót.  Hún fór í vigtun rétt áður en hún varð 5 mánaða og var þá aðeins of létt en þó ekkert til að hafa áhyggjur af. Við fórum svo erlendis og fórum að gefa henni þurrmjólk en þá var hún orðin 5 mánaða.  Hún er afskaplega ánægð með þurrmjólkina sína en drekkur af brjóstinu á morgnana og fyrir nóttina. Hún er að braggast mjög vel svona og virðist vera mjög sátt.  Er loksins nú farin að vilja smá graut í hádeginu en annars bara á mjólkinni.  Þetta kemur til með breytast núna þar sem ég var að bíða eftir að hún tæki grautinn áður en ég færi að kynna hana fyrir meiri mat.

Það sem ég er að spá er hvort að ég ætti að auka brjóstagjöfina aftur.  Er að hafa áhyggjur af því að ég sé að svipta hana einhverju með því að minnka brjóstagjöfina svona snemma.  Þó líður mér vel með þetta að því leyti að ég sé hún er að þyngjast betur og pabbi hennar nýtur þess t.d. mikið að fá að gefa henni.

Mig vantar sem sé bara blessun yfir þetta fyrirkomulag eða þá hvort að ég ætti að auka aftur brjóstagjöfina nokkrum sinnum yfir daginn líka, er enn heima hjá henni og verð að minnsta kosti þar til hún verður 1árs!

Takk fyrir fyrirfram.

Kveðja, litla mamman með samviskubitið.Sæl og blessuð „mamma litla“.

Þú átt aldrei að hafa samviskubit yfir þinni brjóstagjöf. Þú ert væntanlega alltaf að gera eins vel og þér er unnt til að allir séu ánægðir. Þú veist hvað er best fyrir barnið. Þú reynir að gera það en þarft að taka tillit til annarra þátta í lífi þínu. Þú gerir það samkvæmt þinni bestu samvisku og hefur væntanlega alltaf hag barnsins þíns að leiðarljósi og þar með þarftu ekki að að hafa neitt samviskubit yfir því sem þú ákveður.

Veltu bara fyrir þér hvort þú hafir áhyggjur af því hvort þú hafir tekið rétta ákvörðun eða hvort þú vilt breyta henni. Það er ekkert athugavert við að skipta um skoðun. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þú sért raunverulega sátt við núverandi stöðu þá stendur hún.

Vona að þetta hjálpi eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. ágúst 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.