Spurt og svarað

31. maí 2005

Sár á geirvörtum

Málið er að ég er með eina 4 daga gamla sem að sýgur alveg ofboðslega fast. Núna er ég komin með stór og blæðandi sár á báðar geirvörtur og ég græt þegar ég gef henni af sársauka. Hvað get ég gert til að þetta grói sem fyrst af því að mig langar að hafa hana á brjósti lengur en nokkra daga.

.......................................................................

Sæl og blessuð.

Það er mikilvægt að það sé skýrt að sár á vörtum koma ekki vegna sogstyrks barns. Hversu fast barn sýgur skiptir ekki máli heldur hvort að geirvartan sé á réttum stað upp í munni þess þegar það sýgur. Ef vartan er rétt staðsett getur barnið sogið stanslaust tímunum saman eða fjölburar hver á fætur öðrum án þess að það reyni nokkuð á vörtuna sjálfa. Ef hins vegar vartan er of framarlega í munninum juggast hún milli tungunnar og harða gómsins í hverju sogi og verður fljótlega aum og sár. Það er mjög mikilvægt að fá hjálp strax frá einhverjum sem kann til verka og leiðrétta vörtugripið. Það þarf að sjálfsögðu að kenna þér að gera það sjálf en ekki að gera það fyrir þig. Svo er mikilvægt að barnið fái ekki snuð því það er versti óvinur sárra varta á fyrstu dögunum. Það er líka mikilvægt að fara ekki út í að „hlífa“ vörtunum því þá ertu að fresta óhjákvæmilegum sársauka í stað þess að láta ástandið fara að lagast með réttum aðgerðum. Það skiptir líka máli að annast vörturnar þínar vel með því að halda þeim hreinum og þurrum.

Með von um að þú fáir fljótt hjálp,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.