Sár á geirvörtum, er með vikugamlan son

23.11.2005

Ég á vikugamlan son sem er duglegur að drekka. Ég er komin með sár á geirvörturnar en fékk samt þau svör frá ljósmóður sem kom í gær að hann væri að sjúga rétt. Ég heyrði að maður ætti ekki að þurrka brjóstamjólkina af geirvörtunum við lok gjafar þar sem mjólkin væri svo „læknandi“ eða sótthreinsandi og munnvatn barnsins líka. Svo var ég að lesa hérna að maður eigi að þvo geirvörturnar eftir hverja gjöf og fyrir! Mig langar að vita hvað sé best að gera ef maður er búin að heyra að hann sjúgi rétt og hvernig ég get látið sárin gróa sem fyrst því þetta er náttúrulega ótrúlega vont.

...................................................................................................

Sæl og blessuð!

Almenna reglan er sú að ef vörtur eru aumar á fyrstu dögum brjóstagjafar er móðurmjólk dreift yfir vörturnar eftir gjafir. Þetta er oft líka látið gilda þótt eitthvað sé farið að sjá á vörtunum. Hins vegar ef komin eru sár fellur þetta úr gildi. Það er alltaf viss hætta á að sýkingar komist í opin sár og í þeim tilfellum er mjólkin orðin kjöræti fyrir bakteríur. Þá leggur maður áherslu á að þvo hana af eftir gjafir og halda vörtunum hreinum og þurrum milli gjafa eins og kostur er. Sár svo snemma eftir fæðingu eru yfirleitt alltaf vegna rangs grips á vörtu. Ef ljósmóðirin hefur sagt að gripið væri rétt ættu sárin að gróa á 2-3 dögum. Það á við ef þú leggur beint á brjóst (ekki með mexicanahatti) og eingöngu barnið sjái um sogið (ekki notuð vél eða pumpa).

Ef sárin halda áfram er um tvennt að ræða. Annaðhvort er komin sýking í sárin og þau geta ekki gróið þess vegna. Þá þarftu skoðun og meðferð. Eða að það er ekki rétt grip eða sog á vörtunni. Það er ekki alltaf auðvelt að sjá það og þau geta líka stundum sogið rétt og stundum vitlaust. Það er kölluð sogvilla og er vegna þess að barnið fær snuð, túttu eða hatt eða hefur einhvern tíma fengið það. Það er líka hægt að laga en miserfitt þó. Þú þarft fyrst og fremst góða aðstoð til að hjálpa þér í gegnum þetta erfiðleikaskeið.

Bestu kveðjur og ósk um að þú fáir góða hjálp,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. nóvember 2005.