Spurt og svarað

29. nóvember 2006

Sár á vörtu

Góðan dag.

Ég á tveggja mánaða gamla dóttur. Ég er búin að vera í miklu brasi með vörturnar á mér. Búin að fá sveppasýkingu í brjóstin og stíflu og endalaus sár sem eru ekki enn gróin. Önnur vartan á mér er klofin og þegar hún sýgur togast vartan alltaf aðeins meira út að ofan. Ég er búin að prófa allar stellingar og ekki nær sárið að gróa. Ég er búin að fækka gjöfunum á því brjósti niður í 3-4 á sólarhring svo að sárið nái frekar að gróa. Svo þegar mér finnst það alveg vera að gróa þá nær hún alltaf að rífa það upp aftur þannig að þetta er orðinn einn vítahringur. Eins þyngist hún ekki mjög mikið. Fæddist 4010 gr. og var 7 vikna 4750 gr. þannig að ég hef líka áhyggjur af því að hún þyngist ekki nóg. Mér finnst hún samt vera á brjósti alveg á eins og hálfs til tveggja tíma fresti á daginn (er mjög vær og góð). Ég er svo hrædd um að ég missi mjólkina alveg niður í sára brjóstinu meðan ég er að reyna að láta það gróa. Á ég að fá mér mjaltavél í einhverja daga til að mjólka sára brjóstið til að sárið grói frekar eða á ég að láta hana sjúga það áfram í von um að sárið grói sem ég er orðin ansi vonlítil að geri? Eða á ég kannski að mjólka bara á öðru brjóstinu, gefast upp á þessu sára? Ég er líka svo hrædd um að ég nái ekki mjólkinni almennilega upp í sára brjóstinu þegar sárið er gróið. Ég vanda mig mjög mikið þegar ég legg hana á, tek hana strax af ef  hún meiðir mig og legg hana á aftur, þannig að ég held að hún taki brjóstið alveg rétt, það er bara hálf fatlað. Eins er ég alltaf hrædd um að fá sýkingu í sárið þar sem það opnast alltaf þegar hún sýgur.

Með kveðju og þökk fyrir frábæran vef, „sáramamma“.

 


 

Sæl og blessuð „sáramamma“.

Ef að ég skil lýsingu þína rétt þá er þetta ein erfiðasta gerð sára sem koma á geirvörtur. Þau eru stundum kölluð "innhverfð" sár þ.e.a.s. eftir gjöf eru þau opin og hrá. Svo síga þau inn í miðjunni um leið og barmarnir umhverfis hverfast yfir þau. Eftir smástund eru þau horfin sjónum. Það kemur gjarnan sýking í þau og er lengi nema eitthvað sé gert. Þú þarft mjög líklega að læra að hreinsa sárið almennilega. Svo þarftu mjög líklega að fá sýkladrepandi krem til að bera á það. Það þarf líka að vera 100% öruggt að þú leggir vörtuna á besta mögulega hátt upp í barnið svo það skapist ekki óeðlilegur þrýstingur á sárið. Alltaf þegar þú ert ekki að bera sýkladrepandi kremið á þarf að bera vel feitt krem á sárið t.d.Lansinoh svo nudd barmanna sé ekki að valda særindum. Það er alveg hægt að laga þetta með réttum aðferðum. Þú getur fundið mikinn mun til batnaðar á 3-4 dögum en sárið er þó miklu lengur að fullgróa. Þú þarft ekki að mjólka þig með mjaltavél enda gæti það gert illt verra og ég get ekki séð að þú þurfir að hafa áhyggjur af þrifum barnsins. Þú virðist hafa næga mjólk og barnið er vært.

Með von um að þetta hjálpi.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.