Spurt og svarað

30. apríl 2006

Sárar geirvörtur - blóð kemur upp úr barninu

Góðan daginn.

Ég hef verið í smá vandræðum með brjóstagjöfina. Þannig er að ég er með sár á geirvörtunum sem grær ekki, opnast alltaf þegar ég gef dóttur minni að drekka. Það fór síðan koma blóð upp úr tveggja mánaða gamalli dóttur minni, bæði nefi og munni og fékk ég lækni til þess að kíkja á hana. Mér var sagt að ekkert væri að dóttur minni en að blóð getur komið upp úr brjóstabörnum ef geirvörturnar eru sárar. Ég fór því að nota brjóstapumpu og gefa dóttur minni úr pela. En sárin gróa ekki, opnast líka alltaf þegar ég nota brjóstapumpuna. Ég gafst síðan upp á að vera alltaf að pumpa mjólkina úr brjóstunum og fór að gefa henni aftur brjóstið. Núna finnst mér hún stundum óvær eftir að ég er búin að gefa henni að drekka og hún ælir dálítið (einstöku sinnum öllu því sem hún hefur verið að drekka). Stundum er ælan brúnleit og dálítið þykk hjá henni. Ég er farin að velta því fyrir mér hvort að ástæðan geti verið sárin á geirvörtunum.  Getur dóttir mín orðið veik af því að drekka hjá mér ef ég er með sár á geirvörtunum?

Nú hef ég lesið að sárar geirvörtur stafi yfirleitt alltaf af því að börnin eru að taka brjóstið eitthvað vitlaust. En ég finn ekki mikið til þegar hún er að drekka, bara smá fyrst þegar hún er að byrja að drekka og síðan aðeins þegar hún er að klára. Á ég ekki að finna mikið til ef hún er að taka brjóstið eitthvað vitlaust? Ég er að velta því fyrir mér hvort að það geti verið að ég sé komin með sýkingu þar sem sárin gróa ekki. Ég finn eiginlega meira til í brjóstunum þegar stelpan mín er ekki að drekka, fæ stundum sára stingandi verki í bæði brjóstin sem leiða út í handarkrika og er einnig mjög aum í geirvörtunum. Ég hef heyrt að það megi ekki nota brjóstakrem ef maður er með sár en að gott sé að setja plastfilmu yfir geirvörturnar. Ég prufaði það og mér finnst ég verða enn aumari ef ég set plastfilmu yfir svo ég hætti því. Ég er greinilega að gera eitthvað vitlaust í sambandi við brjóstagjöfina svo ég hef verið að velta því fyrir mér að hafa samband við brjóstaráðgjafa en hvar get ég fundið brjóstaráðgjafa?

Kveðja, Lára.

 


 

Sæl og blessuð Lára.

Það má segja að það sé nokkuð öruggt með svona gamalt sár að það sé sýkt. Það er alveg rétt hjá þér að ef þú finnur ekki til í gjöfinni er barnið líklega að grípa rétt. En ef bakteríur eru búnar að hreiðra um sig í sárinu þá getur það yfirleitt ekki gróið af sjálfu sér nema á afar löngum tíma. Það er því næst á dagskrá hjá þér að fá meðferð við sýkingunni. Hún er yfirleitt í formi sýkladrepandi krems sem borið er á sárið nokkrum sinnum á dag. Sár sem eru sprungur og hafa náð að verða djúp geta verið ansi lengi að gróa en það er aðalatriðið að snúa þróuninni við og byrja bataferlið.

Einkennin sem þú ert að lýsa sem stingjum og óþægindum milli gjafa geta vel átt við sveppasýkingu og það er einmitt gjarnan að gömul sár eru komin með svokallaða blandaða sýkingu. Þá eru bæði bakteríur og sveppir komnir í sárið. Því er líklegt að þú þurfir líka á sveppameðferð að halda. Hún er flóknari en hin meðferðin en þú ferð að lagast heilmikið eftir 3-4 daga. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því þótt dóttir þín fái eitthvað af blóði með mjólkinni. Það truflar börn yfirleitt mjög lítið og gerir þau ekki veik. Ef þau kasta það mikið upp að þau tapa næringu þá biðja þau bara um meira. En þú þarft náttúrlega að nota aðferð sem kemur í veg fyrir að blæði sem fyrst. Notaðu vel gegnbleytt stykki og leggðu það við vörtuna í 15-30 sek. áður en barnið grípur hana. Þá verður húðin eftirgefanlegri og það blæðir mikið síður.

Já, mér heyrist þú þurfa á brjóstagjafaráðgjafa að halda. Það eru 2 að störfum á Landspítalanum alla virka daga kl. 8-16 í síma 543-3292. Hægt er að hringja og panta tíma samdægurs eða daginn eftir. Með svona gamalt barn þá kostar það göngudeildargjald að fara til þeirra. Síðan eru brjóstagjafaráðgjafar á nokkrum heilsugæslustöðvum og sinna sínu sérsviði meðfram öðrum störfum. Þú getur hringt á þína heilsugæslustöð og kannað málið. Það getur verið mislangur biðtími en gæti verið ódýrari kostur.

Með bestu ósk um skjótan bata,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.